Nú geta lífeyrisþegar leyft sér að fara til tannlæknis

Svandís Svavarsdóttir innsiglar samninginn með handabandi við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur …
Svandís Svavarsdóttir innsiglar samninginn með handabandi við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formann Öryrkjabandalagsins. Fyrir miðju er Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið.

Nýr samningur um tannlæknaþjónustu er langþráð framfaraskref fyrir öryrkja og aldraða. Það var létt yfir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra er hún undirritaði samninginn á fundi í hádeginu. Nýjar reglur taka gildi á morgun, 1. september.

Það vekur athygli að enginn samningur hefur gilt milli Sjúkratrygginga og Tannlæknafélagsins um tannlæknaþjónustu fyrir þessa hópa frá því fyrir aldamót. Viðleitnin til samninga hefur þó verið fyrir hendi af hálfu aldraðra og öryrkja, segja fulltrúar þeirra. Allir eru þó ánægðir með skrefið sem var tekið í dag.

Samningurinn felur í sér 500 milljóna aukna fjárveitingu til þessa málaflokks í ár og aftur verður settur einn milljarður í málefnið á næsta ári. Þetta gerir Sjúkratryggingum kleift að tryggja 50% greiðsluþátttöku í allri tannlæknisþjónustu allra lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja.

Stefnt að 75% greiðsluþátttöku

„Þetta eru mikilvæg þáttaskil. Þessi mál hafa staðið í stað í næstum tuttugu ár og það var löngu tímabært að taka til hendinni. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur,“ segir Svandís Svavarsdóttir í samtali við blaðamann mbl.is.

Svandís segir að stefnt sé að 75% greiðsluþátttöku. „Við erum að leggja áherslu á heilbrigðismál og þetta er liður í áformum stjórnvalda, að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.“ Þessi áfangi segir Svandís að „endurspegli áherslur ríkisstjórnarinnar, að gera vel í heilbrigðismálum.“ Fjármagnið var ekki fyrir hendi um sinn til að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga enn meir en það verði gert um leið og auðið er.

Breytir miklu fyrir stóran hóp fólks

„Þetta er svo mikill léttir eftir að vera búin að slást um þetta mál árum saman og lenda alltaf á steinvegg. Loksins er búinn til starfshópur, sem býr til reglur, þeim er fylgt og nú er komin niðurstaða,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, í samtali við mbl.is.

Þórunn segir þetta breyta miklu fyrir stóran hóp fólks sem getur nú sótt sér tannlæknisþjónustu hér heima. „Ég myndi að halda að nú yrðu svona minni verk hagstæðari hér heima.“ Færri þurfi úr þessu að fara til útlanda til tannlæknis, allavega í minni og einfaldari verkum, segir hún.

Það hefur ekki verið samningur síðan fyrir aldamót. „Fyrir hrun var næstum því kominn samningur og átti að koma. Svo kom hrunið og eftir það var gengið í að sinna börnum: tannlækningar barna voru settar í forgang,“ segir Þórunn. Svo hafi eldri borgarar og öryrkjar setið á hakanum.

Svo hafa verið skammlífar ríkisstjórnir, sem að sögn Þórunnar hafa lítið aðhafst. „Það gerist bara ekki neitt þegar ríkisstjórnir lifa bara í eitt ár. Þá hverfa bara verkefnin út um gluggann.“ Eitt slíkt verkefni er að búa til þennan samning sem nú hefur verið undirritaður.

Nú geta sumir leyft sér að fara til tannlæknis

„Gríðarlegt fagnaðarefni fyrir okkur örorkulífeyrisþega. Þetta er stórt framfaraskref stigið af Svandísi Svavarsdóttur. Það hafa ekki aðrir heilbrigðisráðherrar gert eins vel hingað til,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, í samtali við mbl.is. „Við vildum auðvitað að þetta færi upp í 75% strax en höfum alveg skilning á að við getum ekki tekið fílinn í einum bita.“

Breytingin er léttir fyrir marga. „Það er fjöldi sem hefur neitað sér um að fara til tannlæknis því framfærslan er svo lág. Nú geta sumir loksins leyft sér að fara til tannlæknis og það eru margir sem hafa bókstaflega beðið eftir þessu,“ segir Þuríður.

Markmiðið er að greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga upp í allavega 75%, ef ekki meira. „Mér finnst að á meðan þessum hópi er gert að lifa á launum sem eru langt undir lágmarkslaunum hljóti stjórnvöld að koma til móts við þau með ókeypis heilbrigðisþjónustu.“

Annars er efst á baugi í málum öryrkja „krónu á móti krónu“ kerfið, segir Þuríður. Þetta var afnumið hjá ellilífeyrisþegum 2017 og næst þurfi að gera það sama fyrir öryrkja. „Það er enginn hvati fyrir fólk að fara út á vinnumarkað ef launin eru tekin af þeim,“ segir Þuríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert