Segja komið nóg af hótelum í miðbænum

Byggingakranar í miðborginni.
Byggingakranar í miðborginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir komið nóg af hótelum í miðborginni.

„Á síðasta kjörtímabili var samþykkt aðalskipulagsbreyting sem setur þak á fjölgun hótel- og gistirýma í miðbænum. Það eru engin áform um að breyta því,“ segir Sigurborg Ósk.

Íbúum hefur fækkað

Haft var eftir Hjalta Gylfasyni, framkvæmdastjóra Mannverks, í Morgunblaðinu í gær að vegna breyttrar afstöðu borgarinnar til hótelverkefna hefði fyrirtækið endurskoðað tvö hótelverkefni. Nú væri í staðinn horft til íbúða.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Spurð um tilefni þessarar endurskoðunar segir Sigurborg Ósk ekki hægt að koma fyrir fleiri hótelum á vissu svæði í miðborginni. „Miðbærinn er eina hverfi borgarinnar þar sem íbúum hefur fækkað þrátt fyrir að íbúðum hafi fjölgað. Það er ákveðið viðvörunarljós sem við vorum að bregðast við. Svo er það líka hitt að íbúarnir hafa kallað eftir þessu. Það hefur verið mikill þrýstingur á slíkar aðgerðir og því eðlilegt að bregðast við því.“

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, var formaður umhverfis- og skipulagsráðs á árunum 2014 til 2018.

Skorður við hótelbyggingum

Hann rifjar upp að í aðalskipulagi borgarinnar 2014 hafi verið settar verulegar skorður við því að byggja hótel eða stærri gististaði í skilgreindum íbúðarhverfum.

Hjálmar Sveinsson.
Hjálmar Sveinsson.

Árið 2015 hafi svo verið samþykktur kvóti um að hótelherbergi mættu ekki fara yfir 23% byggðra fermetra í Kvosinni. Sambærilegur kvóti hafi svo verið samþykktur á Laugavegi og Hverfisgötu í fyrra. Þá hafi verið samþykktar breytingar á aðalskipulagi í janúar sl. um að í miðborginni mætti ekki lengur breyta íbúðarhúsnæði eða skrifstofuhúsnæði í hótel.

Loks hafi borgin, eftir lagasetningu á Alþingi um skammtímaleigu, ákveðið að framlengja ekki tímabundin starfsleyfi fyrir gistingu í íbúðargötum. Því hafi fjöldi íbúða farið úr slíkri leigu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert