„Sveppir eru sælgæti“

Hér er Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla …
Hér er Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands, á milli forsprakka frá Ferðafélagi barnanna, þeirra Döllu Ólafsdóttur og Matthíasar Sigurðarsonar. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson.

Fjöldi fólks tók þátt í árlegri sveppagöngu í Heiðmörk í morgun þar sem leitað var sveppa og fengu göngumenn fróðleik frá vísindamönnum Háskóla Íslands um hvaða sveppi megi borða og hverja eigi að forðast.

Sveppagangan var í samstarfi  Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti.“ Samstarfið hefur staðið frá aldarafmæli skólans árið 2011 og ferðirnar notið mikilla vinsælda.

Sveppir þrífast alla jafna nálægt trjágróðri eins og í Heiðmörkinni …
Sveppir þrífast alla jafna nálægt trjágróðri eins og í Heiðmörkinni og þessi ungi maður fann þennan og var bara býsna kátur með aflann enda er þessi sveppur ætur. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson

Á þriðja þúsund tegundir sveppa á Íslandi

Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands, leiddi gönguna í morgun ásamt fjölda nemenda við HÍ sem allir hafa sérþekkingu á íslenskum sveppum.  „Um 2.100 tegundir sveppa er skráðar á Íslandi,“ segir Gísli Már, en á hverju ári bætast við nýjar tegundir í þennan sérstaka flokk lífvera.

Sveppir eru sælgæti en það er betra að þekkja þá góðu frá þeim vondu og eitruðu. Vegna fjölda sjálfstæðra tegunda getur reynst flókið að finna æta sveppi því af þessum rösklega tvö þúsund tegundum eru aðeins um 30 ætar á Íslandi, sem að auki bragðast vel. Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega.

Í ferðinni í Heiðmörk var ekki bara sveppunum safnað því fróðleikur um verkun og eldun þeirra fylgdi með, að því er fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum.

Gluggað í sveppafræðibækur.
Gluggað í sveppafræðibækur. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson

Fjóluhelma, iltrektla, kúalubbi, fótgíma og mjúkfísi

Nöfn á sveppum á íslensku eru mörg hver algerlega mögnuð en í Heiðmörkinni má m.a. finna gráserk, grávönd, anístrektlu, glanstrefil, gullkornhettu, slímgump, guleggjahelmu, furusvepp, fjóluhelmu, iltrektlu, kúalubba, grænhneflu, fótgímu og mjúkfísi en þeir dafna allir nærri trjám eins og í Heiðmörk.  Þar má líka finna gulltoppu, sem er eitruð, lerkisveppi, gullbrodda og sortukúlu. Framangreindar tegundir eru ekki allar ætar en þessar tegundir eru gómsætar: Furusveppur, kúalubbi, lerkisveppur, sortukúla, fótgíma, mjúkfísi og slímgumpur.

Þessar ungu dömur skoðuðu fjöldan allan af sveppum í Heiðmörk …
Þessar ungu dömur skoðuðu fjöldan allan af sveppum í Heiðmörk í dag. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson
Haustið er farið að gera vart við sig í Heiðmörk.
Haustið er farið að gera vart við sig í Heiðmörk. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert