Hægt gengið að tryggja heilindi

Jón segir Íslendinga aftarlega á merinni í því að innleiða …
Jón segir Íslendinga aftarlega á merinni í því að innleiða umbætur til að tryggja heilindi. mbl.is/Eggert

Íslendingar hafa farið sér hægar en nágrannaþjóðirnar í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og hér á landi hefur minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem kynnt var í dag. Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og formaður nefndarinnar, kynnti skýrsluna en hann sagði stjórnvöld ekki hafa gert það að forgangsmáli að efla traust þrátt fyrir kröfur almennings. Íslendingar væru aftarlega á merinni í að innleiða umbætur.

Niðurstaða starfshópsins er sú að til að breyta þessu þurfi stjórnvöld að móta heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og fylgja henni eftir með aðgerðaáætlun.

Hópurinn skilaði 25 tillögum sem skiptast í átta meginsvið. Sumar þessara tillagna krefjast breytinga á lögum, aðrar krefjast þess að stjórnvöld setji sérstakar reglur, en flestar varða þó aðgerðir sem þarfnast ekki annars en að vilji sé fyrir hendi til að framkvæma þær og forgangsraða í samræmi við þær.

Siðferðisstofnun verði falið ráðgjafarhlutverk

Ein sýnilegasta breytingin á starfsháttum stjórnvalda varðandi siðferðileg álitamál kemur fram í þeirri tillögu hópsins að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verði tímabundið falið sérstakt ráðgjafarhlutverk. Þetta er að mati hópsins mikilvægt skref til að innleiða þá starfshætti sem nauðsynlegir eru til að skapa grundvöll fyrir auknu trausti á stjórnmálum og stjórnsýslu. Um leið styðji það við nauðsynlega eftirfylgni með þeim tillögum sem settar eru fram.

Önnur tillaga snýr að gagnsæi, miðlun upplýsinga og upplýsingaréttar til almennings sem felur í sér að ráðist verði heildarstefnumótun um upplýsingagjöf til almennings, þar með talið upplýsingagjöf handhafa dóms- og löggjafarvalds. Afgreiðslutími úrskurðanefndar um upplýsingamál verði styttur og upplýsingagjöf ráðneyta verði samræmd og einfölduð, ásamt því að skýra betur hlutverk þeirra starfsmanna sem sinna upplýsingagjöf og almannatengslum.

Jón sagði að ef stjórnvöld væru að reyna að fegra það sem þau væru að gera yrðu þau auðvitað sökuð um spuna. Það væri hins vegar mikilvægt að koma miklum og réttum upplýsingum til borgaranna.

Áhrifaríkari leið en heitstrengingar

Eftir kynningu á skýrslunni var viðstöddum boðið að spyrja spurninga. Bergur Þór Ingólfsson leikari, sem barðist ötullega fyrir því að upplýsingar um gögn er vörðuðu uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna yrðu gerðar opinberar, spurði hvort tillögum hópsins fylgdu einhver tilmæli til stjórnvalda um að bregðast örugglega við eða að strengd yrðu heit um að málið yrði ekki látið velkjast um.

Bergur Þór var mættur á fundinn og spurði hvernig tryggja …
Bergur Þór var mættur á fundinn og spurði hvernig tryggja ætti að tillögur nefndarinnar yrðu ekki látnar velkjast um í kerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Jón sagðist telja að það að blanda Siðferðisstofnun í málið væri mun áhrifaríkari leið en heitstrengingar. Siðferðisstofnun væri utan stjórnkerfis og gæti því veitt ákveðið aðhald. Það væri því tryggasta leiðin til að auka líkurnar á því að tillögur hópsins færu í þann farveg sem hann vildi.

Vítahringur vantrausts getur orðið til

Starfshópurinn metur það svo að vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu, sem kannanir sýna að er talsvert meira en annars staðar á Norðurlöndum, megi að hluta rekja til þess að ekki hefur verið hugað nægilega að heildstæðri stefnumótun. Stjórnvöld séu því vanbúin að bregðast við, taka og læra af gagnrýni. Einnig skorti nauðsynleg tæki og tól til að rýna fyrirfram ákvarðanir, framkomu og samskipti við almenning.

Fram kemur í skýrslunni að vantraust á stjórnvöld skapi pólitískan óstöðugleika, dragi úr vilja og getu til að vinna að stöðugri endurnýjun lýðræðislegra kerfa og valdi sambandsleysi almennings og fulltrúa þeirra sem með völdin fara. Þó að félagslegt traust sé meira í íslensku samfélagi en víða annars staðar, og ekki nein merki þess að sjá að fjari undan samfélagslegum stöðugleika, sé vantraust á stjórnvöldum vandi sem til lengri tíma getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Vantraust, hvort sem það sé verðskuldað eða ekki, dragi sjálft úr möguleikum stjórnvalda til að ná árangri. Jón sagði vantraust í raun geta aukið sjálft sig og þannig gæti vítahringur vantrausts orðið til. Tregða til að veita upplýsingar geti þannig vakið tortryggni og krafan um að fá aðgang að upplýsingum verði ríkari. Þegar upplýsingarnar loks berast er hætt við að þær verði túlkaðar á versta veg. Það geti svo gert það að verkum að stofnanir óttist að láta frá sér upplýsingar. Jón sagði í raun engan sökudólg þar á ferðinni, heldur væri um að ræða vítahring sem þyrfti að bregðast við.

Tillögur starfshópsins má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

 Markmið um heilindi

  1. Ríkisstjórnin setji fram stefnuskjal sem lýsir markmiðum um heilindi – heilindaramma (e. Integrity Framework). Innihald hans mótist af þeim atriðum sem hér koma á eftir.

 Siðareglur og siðferðileg viðmið

  1. Hefja nú þegar nauðsynlega vinnu við endurskoðun siðareglna ráðherra, starfsfólks stjórnsýslu og ríkisstarfsmanna.
  2. Tryggja reglulega umræðu um siðareglur og endurskoðun þeirra á vettvangi Stjórnarráðsins.
  3. Setja siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra og mögulega fleiri hópa innan stjórnsýslunnar.
  4. Tryggja heildarsýn og samræmi í þeim siðareglum sem gilda fyrir kjörna fulltrúa, ráðherra og starfsmenn stjórnsýslu.

 Gagnsæi, miðlun upplýsinga og upplýsingaréttur almennings

  1. Ráðast í heildarstefnumótun um upplýsingagjöf til almennings, þ.m.t. upplýsingagjöf handhafa dómsvalds og löggjafarvalds.
  2. Stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
  3. Samræma og einfalda upplýsingagjöf ráðuneyta og skýra betur hlutverk þeirra starfsmanna sem sinna upplýsingagjöf og almannatengslum.

 Hagsmunaárekstrar og hagsmunaskráning

1. Setja nú þegar skýrar og samræmdar reglur um hagsmunaskráningu ráðherra sem ná til fleiri þátta – t.d. skulda – en núverandi reglur gera og taka einnig til maka og ólögráða barna.

 Samskipti við hagsmunaaðila, hagsmunavarsla (e. lobbyism) og starfsval eftir opinber störf

  1. Þeim aðilum sem hafa atvinnu af því að tala máli hagsmunaaðila gagnvart stjórnmála- og embættismönnum verði gert að skrá sig sem hagsmunaverði (e. lobbyist).
  2. Hefja vinnu að reglum um samskipti við hagsmunaaðila. Slíkar reglur þurfa að tryggja fullt gagnsæi um samskiptin.
  3. Setja reglur um starfsval eftir opinber störf sem koma í veg fyrir að starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi. Slíkar reglur varða einkum tíma sem nauðsynlegt er að líði frá starfslokum og þar til starf fyrir einkaaðila hefst.

 Vernd uppljóstrara 

  1. Vinnu við heildstæða löggjöf um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann verði hraðað og frumvarp lagt fram sem allra fyrst. Mið verði tekið af nýlegri löggjöf í nágrannalöndum, t.d. í Noregi.

 Lýðræðislegt samráð við almenning

  1. Stjórnvöld setji sér skýr markmið um aukið samráð um stefnumótun, undirbúning löggjafar og aðrar mikilvægar ákvarðanir.
  2. Samráðsgátt stjórnvalda verði efld og hugað að víðtækri kynningu á henni sem heppilegri leið hins almenna borgara til að hafa áhrif á mótun lagasetningar og stefnumála.
  3. Stjórnvöld leggi sig fram um að nýta hugbúnað og veflausnir til að auka þátttöku almennings og stefni að því að Ísland verði í hópi þeirra landa sem fremst standa í nýsköpun á sviði lýðræðis.
  4. Sótt verði um aðild að Open Government Partnership í samvinnu við félagasamtök. e. Unnið verði að því að styrkja borgaralegan vettvang t.d. með föstum styrkjum til félagasamtaka sem uppfylla tiltekin skilyrði um starfsemi og skipulag.

 Símenntun starfsfólks, fræðsla og gagnrýnin umræða

  1. Stjórnarráðsskólinn verði efldur þannig að starfsemi hans nái utan um reglubundna þjálfun allra starfsmanna á sviði opinberra heilinda.
  2. Þróað verði sértækt námsefni fyrir opinbera starfsmenn um siðferðileg álitamál og heilindi í opinberu starfi, þ. á m. dæmasöfn.
  3. Stuðlað verði að því að umræða innan stjórnsýslunnar um heilindi, siðferði í opinberu starfi og fagmennsku sé fastur liður í starfi hennar.
  4. Stefnt verði að því að efla gagnrýna umræðu innan stjórnsýslunnar, en slík umræða er forsenda þess að ráðuneyti og einstakar starfseiningar beri kennsl á brotalamir í starfseminni til að hægt sé að breyta stofnanamenningu þegar nauðsyn krefur.

 Stofnanaumgjörð

  1. Siðfræðistofnun verði falið það verkefni (tímabundið, til að byrja með) að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðileg álitamál og fjárveiting til þeirrar starfsemi tryggð.
  2. Siðfræðistofnun verði falið að annast eftirfylgni með þessari skýrslu.
  3. Sett verði á fót nefnd eða eining innan stjórnsýslunnar með það sérhæfða hlutverk að veita einstökum starfsmönnum, þ.m.t. ráðherrum, ráðgjöf í trúnaði um siðferðileg álitamál.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert