Lagnakerfið mælt upp á millimetra

Dróni mælir nú ástand og þykkt hitaveitulagna á höfuðborgarsvæðinu með sónartækni. Tæknin byltir viðhaldi lagnakerfisins að sögn verkefniststjóra hjá Veitum en dróninn getur mælt yfirborð og þykkt hitaveitulagna upp á millimetra og safnar 10 gígabætum af gögnum á hverja 100 metra sem hann mælir.  

Starfsmenn norska fyrirtækisins Breivoll voru við mælingar við Bústaðaveginn í gær og mbl.is fylgdist með. Sagað er gat til að koma drónanum ofan í lagnirnar þar sem hann ferðast 8 cm á sekúndu og tekur 360° sónarmynd sem sýnir með mikilli nákvæmni ástand lagna.

Helstu áhrifin sem þetta hefur á rekstur Veitna er að viðhaldsáætlanir þurfa ekki lengur að taka mið af aldri röra eða hvernig þau bila. Veitur reka um 3.000 km af lögnum á höfuðborgarsvæðinu og eru þær elstu frá árinu 1909 en elstu heitavatnslagnirnar eru frá árinu 1960.

Gagnamagnið sem mælingarnar skila er slíkt að einhvern tíma tekur að greina það áður en fyrstu niðurstöður mæinganna berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert