Frakkar sektaðir um 400 þúsund krónur

Djúp hjólför voru eftir mótorhjólin bæði í nánd við veginn …
Djúp hjólför voru eftir mótorhjólin bæði í nánd við veginn og einnig fjær, þó ekki með samfelldum hætti. Ljósmynd/Lögreglan

Fjórir franskir ferðamenn greiddu samtals 400 þúsund krónur í sekt eftir að hafa orðið uppvísir að utanvegaakstri á stórum torfæruferðamótorhjólum.

Landspjöll urðu á um 1,3 kílómetra kafla meðfram vegi F910 frá Herðubreiðartöglum, suðaustur í átt að Upptyppingum, austan Öskju.

Þetta kemur fram á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Lögreglan fékk seinnipart þriðjudags inn á borð til sín, frá landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs, tilkynningu og skýrslu um utanvegaaksturinn.

Landvörðum tókst að hafa hendur í hári þessara ökumanna, sem gengust við brotum sínum.

Djúp hjólför voru eftir mótorhjólin bæði í nánd við veginn og einnig fjær, þó ekki með samfelldum hætti.

Lögreglan á Húsavík vann úr gögnum málsins og var umræddum ökumönnum gert að gefa sig fram á lögreglustöðinni á Akureyri vegna málsins í gær þar sem hver og einn þeirra greiddi 100 þúsund króna sekt, til ríkissjóðs, samtals 400 þúsund krónur.

Fram kemur í tilkynningunni að málinu sé lokið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert