Tilviljun hvort börn fá stuðning

Getty Images/iStockphoto

„Frumvarpinu er ætlað að tryggja eins og kostur er velferð barna sem missa foreldri vegna veikinda eða skyndilegs fráfalls. Þannig að í umhverfinu verði vissir aðilar innan ákveðinna stofnana, heilsugæslunnar, spítalans, skólastjórnendur, sýslumenn og svo framvegis sem hafi visst hlutverk til að mannréttindi þessara barna séu tryggð. Þeim ber þá að tryggja að þegar barn missir foreldri fari strax ákveðið ferli í gang til að tryggja að því sé leiðbeint og aðstoðað í gegnum áfallið og úrvinnslu úr því. Um leið yrði barninu ekki bara fylgt í gegnum áfallið heldur einnig áfram út í lífið þar sem það þarf að vera samfella í slíkri aðstoð,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingar á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Þingmenn sex flokka endurflytja nú á haustdögum frumvarpið en börn sem missa foreldri hér á landi hafa lengi verið í lausu lofti með hvaða stuðningi þau eiga rétt á. Á síðasta ári fjallaði Sunnudagsblað Morgunblaðsins um frumvarp um breytingu á lögum til ættleiðingar þar sem vilji er til að ættleiða barn sem hefur misst annað foreldri eða báða foreldra. Frumvarpið var samþykkt nú í vor og með lagabreytingunni þarf nú að leita umsagnar nánustu fjölskyldu látna foreldrisins en áður var það þannig að hægt var að ættleiða barn án þess að fjölskylda fráfallins foreldris vissi af því.

Í þeirri umfjöllun kom jafnframt fram að gera þyrfti átak í fleiri málum er snerta rétt barna sem missa foreldri en Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hefur verið hvatamaður þess að unnið sé í réttindamálum barna í þessari stöðu og snúið sér alfarið að þeim málum eftir að hann hætti þingmennsku

Vilhjálmur, Jón Bjarnason og fleiri hafa bent á að eins og staðan er í dag fari ekkert ferli í gang í kerfinu sem grípur þessi börn og aðstoðar heldur er það tilviljanakennt hvort þau fá stuðning.

Myndi tryggja verkferla

Samkvæmt frumvarpinu myndi grunnskóla- og leikskólabörnum sem og framhaldsskólanemum, sem eiga langveik eða deyjandi foreldri, vera tryggður stuðningur. Bæði innan skólanna í samvinnu við heilsugæslu, heilbrigðisstofnunina þar sem foreldrið er til meðferðar og foreldra eða aðra þá sem annast um barnið eða ungmennið.

„Þessar lagabreytingar myndu tryggja að þegar barn missir foreldri færu sjálfkrafa í gang ákveðnir verkferlar og vitað væri hverjir bæru ábyrgð á þeim. Eins og þetta er núna fer þetta bara eftir því hver er á vakt á spítalanum, hvernig skólastjórinn er, upp á það hvort barn fær þá aðstoð sem það þarf. Í dag vitum við að það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar fólks á fullorðinsárum ef það fær ekki aðstoð við áföll sem börn svo þetta er bæði mannréttinda- og forvarnarmál.“

Miklar rannsóknir að baki

Fræðilegur grunnur lagabreytinganna er þriggja ára rannsóknarverkefni á stöðu barna þegar foreldri hefur greinst með krabbamein. Rannsóknunum stýrði dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, og hafa allir þrír áfangar rannsóknarinnar verið gefnir út í Ritröð Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, RBF.

„Það má segja að við lítum svo á að frumvarpið sé ein afurðin af niðurstöðum rannsóknarverkefnisins. Niðurstöðurnar voru þær að börnum og þeirra þörfum er ekki gefinn gaumur við veikindi og missi foreldris. Það á við um heilbrigðis- og velferðarþjónustuna, skólana og jafnvel fjölskylduna,“ segir Sigrún, en bæði var rætt við fagfólk og fjölskyldumeðlimi í rannsóknarverkefninu.

Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf.
Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf. mbl.is/Styrmir Kári

„Rannsóknir mínar og annarra hafa sýnt að það er ákveðin einstaklingshyggja ríkjandi á stofnunum. Hin formlega ábyrgð er á einum einstaklingi og það er hinn veiki. Kerfið gerir ekki ráð fyrir að þessi einstaklingur sé hluti af öðru mengi og þannig gleymist að sinna fjölskyldu þess veika og börnin eru afskipt og ósýnileg. Við ræddum m.a. við ekkla og það kom í ljós að þeim er að lágmarki sinnt við og eftir eftir sinn missi. Þannig eru þeir oft ekki þess megnugir að hugsa um börnin líka. Það er líka áhugavert að í viðtölunum kom í ljós að það eru oft ömmurnar sem eru sterkur bakhjarl í fjölskyldunum, sitja við dánarbeð veikrar dóttur, sinna heimilinu og börnunum og oft tengillinn við skólann. En þær eru líka ósýnilegar, ekki er gert ráð fyrir þeim af hálfu heilbrigðisstofnunarinnar. 

Það kemur fram í fyrsta hluta rannsóknarinnar að fagfólk er ósátt við þetta og vill geta sinnt nánustu aðstandendum og ekki síst börnum. En þar er álagið þvílíkt og fer eftir persónu hvers og eins starfsmanns hvað hann gerir. Margir tala einnig um að þeir hafi hvorki rými né þekkingu til að mæta þörfum barnanna og þau gleymast.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Í rannsóknunum kom líka í ljós að börn eru ekki endilega tilbúin til að treysta fagfólkinu. Þau finna að þau eru utanveltu og þótt þeim sé sagt að þau geti hitt fagmann fá þau ekki nöfn eða ákveðinn tíma og staðsetningu þannig að slíkt fellur um sjálft sig.

Við höfum verið eftirbátar hinna Norðurlandanna í þessu en þar er komið í lög að það beri að gefa gaum börnum í þessari stöðu, þau fái viðeigandi stuðning, eigi rétt á upplýsingum og að vera þátttakendur.“


Sigrún segist binda miklar vonir við frumvarpið þar sem starfsfólk stofnana fengi þá leiðbeiningar um hvernig skyldi sinna börnum í sorg.

Greinin birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert