Orkuskipti og átak í kolefnisbindingu

Ríkisstjórnin markar nú þá stefnu að nýskráning bíla sem ganga …
Ríkisstjórnin markar nú þá stefnu að nýskráning bíla sem ganga einungis fyrir jarðefnaeldsneyti verði óheimil eftir árið 2030. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á næstu fimm árum verður 6,8 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hér á landi, sem er margföldun miðað við undanfarin ár. Ný aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum er nú kynnt á blaðamannafundi í Austurbæjarskóla, sem hófst klukkan 14.

Markmið áætlunarinnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamkomulagsins til 1930 og markmið ríkisstjórnarinnar um að ná kolefnishlutleysi árið 2040.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í fréttatilkynningu að vilji íslenskra stjórnvalda til að ná raunverulegum árangri í þessum efnum sé einbeittur.

„Ríkisstjórnin hefur tryggt stóraukið fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum og kynnir nú megináherslur nýrrar aðgerðaáætlunar í þessum mikilvæga málaflokki. Framundan er svo samráð við bæði atvinnulíf, sveitarfélög og almenning um nánari útfærslur,“ segir Katrín.

Hröð orkuskipti og aukin kolefnisbinding

Alls er að finna 34 aðgerðir á ýmsum sviðum í áætluninni, en megináherslurnar eru tvær.

Í fyrsta lagi eru það orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum. Þáttur í þessu er að ríkisstjórnin hyggst banna nýskráningu bíla sem einungis ganga fyrir jarðefnaeldneyti, bensíni og dísil, eftir árið 2030.

Í annan stað er um að ræða átak í kolefnisbindingu, þar sem skógrækt og landgræðsla munu gegna lykilhlutverki, auk þess sem markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Líkt við innleiðingu hitaveitunnar

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar eru orkuskiptin í vegasamgöngun sögð sambærileg orkuskiptunum sem urðu með innleiðingu hitaveitunnar á sínum tíma, þegar Íslendingar hættu að brenna mengandi og innfluttum orkugjöfum með markvissu átaki og fóru þess í stað að nota innlenda, endurnýjanlega orku.

„Það er ljóst að næsta bylting okkar í loftslagsmálum verður orkuskipti í samgöngum, líkt og hitaveitan var á sínum tíma. Ísland hefur með þessu sett sér það markmið að vera meðal fyrstu ríkja heims til að ná fram fullum orkuskiptum, ekki bara í húshitun heldur einnig í vegasamgöngum. Við setjum markið hátt, þar sem framtíð komandi kynslóða er undir,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra í fréttatilkynningu.

Á næstu fimm árum er áætlað að verja 1,5 milljörðum króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða tengdra orkuskiptunum. Áfram verða veittar ívilnanir vegna á rafbíla og annarra visthæfra bíla og nýjum ívilnunum komið á vegna almenningsvagna, dráttarvéla og fleiri þyngri ökutækja.

Aðgerðaáætlunin á að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins …
Aðgerðaáætlunin á að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins og nái eigin markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá verða hvatar til að fjárfesta í ökutækjum sem losa lítinn koltvísýring efldir og kolefnisgjald verður áfram hækkað, auk þess sem almenningssamgöngur verða styrktar, í samræmi við samgönguáætlun.

Ríkisstjórnin markar þá stefnu, að fordæmi nágrannaríkja á borð við Noreg, Frakkland og Bretland, að banna nýskráningu bíla sem eingöngu ganga fyrir bensíni eða dísilolíu árið 2030, en tekið er fram að gætt verði sérstaklega að hugsanlegum undanþágum, til dæmis á stöðum þar sem „erfitt kann að vera að nota aðra bíla en þá sem ganga fyrir bensíni og dísilolíu,“ að því er segir í fréttatilkynningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

4 milljarðar í kolefnisbindingu

Á næstu fimm árum er áætlað að fjórum milljörðum króna verði varið í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt til þess að vinna sérstaklega að markmiði um kolefnishlutleysi.

Áhersla verður lögð á að félagasamtök, bændur og aðrir vörslumenn lands, fái hlutverk í þessu átaki.

Aðgerðaáætlunin kveður á um ýmsar aðrar aðgerðir, sem tengdar eru úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu og fleiru. Sérstökum Loftslagssjóði verður einnig komið á laggirnar, en hlutverk hans verður að halda utan um nýsköpunarverkefni vegna loftslagsmála.

Áætlun ríkisstjórnarinnar verður sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar og boðið verður til samráðs um mótun einstakra aðgerða með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra. Sérstaklega er tekið fram að um fyrstu útgáfu áætlunarinnar sé að ræða og að önnur útgáfa muni líta dagsins ljós strax á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert