„Löngu farið úr höndunum á okkur“

Fjölskyldan hlýddi á málflutninginn í Hæstarétti í gær og í …
Fjölskyldan hlýddi á málflutninginn í Hæstarétti í gær og í dag. mbl.is/Sólrún

„Á meðan Tryggvi lifði þá vildi hann ekki gera þetta. Hann sagði að það væri ekki tími en að einhvern tíma kæmi þetta. Þetta hefur verið mjög löng leið og við erum búin að vinna mikið í þessu,“ segir Sjöfn Sigurbjörnsdóttir, ekkja Tryggva Rúnars Leifssonar, sem var einn dómfelldu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Endurupptaka málsins var tekin fyrir í Hæstarétti í gær og í dag, en blaðamaður hitti Sjöfn og Kristínu Önnu, dóttur hennar og Tryggva, eftir að málflutningi lauk og málið var dómtekið. Þær hlýddu báðar á málflutninginn ásamt Tryggva Rúnari Brynjarssyni, syni Kristínar Önnu.

Tryggvi Rúnar var dæmdur í 13 ára fangelsi í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa banað Guðmundi Einarssyni í janúar árið 1974, ásamt Sævari Ciesielski og Kristjáni Viðari Viðarssyni. Tryggvi Rúnar lést árið 2009, en glataði aldrei voninni um að nafn hans yrði hreinsað einn daginn.

Dagbækur sem hann hélt á meðan hann sat í gæslu­v­arðhaldi í Síðumúlafang­els­inu eru meðal mik­il­vægra nýrra gagna í mál­inu. En þær litu dagsins í árið 2011 þegar þær Sjöfn og Kristín Anna stigu fram í viðtali á Stöð 2. Skömmu síðar skipaði Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, starfshóp til að fara yfir málið.

Ákváðu saman að farga dagbókunum

Í raun hafði þó komist skriður á málið árið áður þegar Sjöfn rifjaði málið upp í viðtali í DV. „Mjög stuttu eftir að Tryggvi dó, eftir að hafa barist við krabbamein í fimmtán mánuði, þá var hringt í mig og ég spurð hvort ég væri til í að koma í viðtal í DV. Fyrst var ég ekki til en ákvað að láta slag standa og þá byrjaði boltinn að rúlla.“

Nokkru síðar, eða árið 2011, var Sjöfn svo beðin um að koma í viðtal á Stöð 2 og bað dóttur sína um að vera viðstadda á meðan viðtalið fór fram. „Þá kom hún upp um sig með þessar dagbækur, sem var alveg æðislegt. Við ákváðum það saman, ég og Tryggvi, að farga dagbókunum á sínum tíma,“ segir Sjöfn, en hún hafði þá ekki hugmynd um að Kristín Anna hefði nokkrar bækur enn í fórum sínum. „Hún spurði mig hvort hún mætti koma með þær fram. Þetta voru auðvitað mínar bækur, en á þessum tíma var kominn hugur í mig og ég vildi sjá þetta fara í gang aftur.“ Leyfið var því gefið og dagbækurnar komu fyrir sjónir almennings í fyrsta skipti.

Jón Magnússon og Jón Steinar Gunnlaugsson ræða hér við barnabarn …
Jón Magnússon og Jón Steinar Gunnlaugsson ræða hér við barnabarn Tryggva Rúnars og nafna. mbl.is/​Hari

Sjöfn segir fjölskylduna hafa fengið ótrúlegan meðbyr á öllum vígstöðvum alveg frá því dagbækurnar komu fram. Hún er því að vonum sátt við ákvörðun sína um að rifja upp sögu Tryggva Rúnars í DV árið 2010. Með því var atburðarásinni, sem nú er að ljúka, hrundið af stað. „Ég er mjög ánægð með mig,  dóttur mína og dótturson, við höldum minningu hans á lofti og það er æðislegt,“ segir Sjöfn, en dóttursonur hennar, Tryggvi Rúnar Brynjarsson, skrifaði einmitt ritgerð um dagbækur afa síns sem hluta af háskólanámi sínu.

Niðurstaðan þarf ekki að verða sú sem þau vilja

Kristín Anna segist hafa upplifað blendnar tilfinningar fyrir endurupptökunni í Hæstarétti. „Að einhverju leyti upplifi ég þetta sem einhvers konar serimóníu, eins og þetta sé hátíðleg athöfn til að binda utan um málið og klára það. En það þarf ekki endilega að vera svoleiðis. Niðurstaðan þarf ekkert að vera eins og við viljum,“ segir hún og móðir hennar tekur undir. „Við getum samt ekki gert neitt meira,“ bætir hún við.

„Við höfum auðvitað mörgum sinnum upplifað það að geta ekki gert neitt meira, en samt erum við komin hingað. Lítil þúfa veltir stóru hlassi og þetta kemur. Það eru svo margir sem eru búnir að koma að þessu. Fjölmiðlafólk hefur ýtt undir, almenningur, innanríkisráðherra á sínum tíma gaf okkur góðan meðbyr og Alþingi veitti fjármagni í þetta á ákveðnum tímapunkti. Það hafa allir lagst á eitt og þrýstingurinn er allur í sömu átt. Það kemur ekki bara frá okkur, aðstandendum og sakborningum. Þetta er löngu farið úr höndunum á okkur,“ segir Kristín Anna.

Aðstandendur Guðmundar og Geirfinns mega ekki gleymast

Í málflutningi Jóns Magnússonar, lögmanns ættingja Tryggva Rúnars við endurupptöku málsins, kom fram að öll fjölskyldan hefði tekið út mikla þjáningu vegna málsins. Tryggvi Rúnar hefði verið hrifinn frá fjölskyldu sinni í miðjum jólaundirbúningi á Þorláksmessu árið 1975 og átti ekki afturkvæmt heim fyrr en mörgum árum síðar. Kristín Anna var þá aðeins nokkurra mánaða gömul. Jón sagði að skjólstæðingi sínum hefði verið mjög umhugað um að nafn hans yrði hreinsað. Jafnvel á banabeðinum.

Sjöfn segir það heldur ekki mega gleymast að þarna úti eru fjölskyldur tveggja manna sem vita ekkert um afdrif þeirra. „Það hefur enginn spáð í hvað kom fyrir þá, því þetta kom ekki fyrir þá,“ segir hún og vísar til atburðarásarinnar sem rannsakendur lýstu fyrir dómi á sínum tíma og leiddi til sakfellingar í málinu.

Verða að eiga ranglætið við sig

Kristín Anna segir að ef einhverjir sem komu að málinu á sínum tíma hafi komið óheiðarlega fram þá verði þeir að eiga það við sig. Þeir hafi fyrir löngu verið spurðir út í ýmsa þætti og fengið tækifæri til að svara þeim spurningum. „Ef það er einhver þarna úti sem finnst hann hafa gert rangt þá verður hann að eiga það við sig og sína. Okkur fannst við beitt ranglæti og við fórum fram fyrir því.“

Hæstiréttur hefur nú fjórar vikur til að kveða upp dóm í málinu, en fjölskyldan segist alveg róleg. „Við erum orðin meistarar í að bíða. Lífið heldur bara áfram. Það fer ekkert að koma skjálfti í mann fyrr en eftir þrjár og hálfa viku,“ segir Kristín Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert