Leggja til friðlýsingu þriggja svæða

Mælifell er á því vatnasviði Hólmsár, ofan Einhyrnings, sem lagt …
Mælifell er á því vatnasviði Hólmsár, ofan Einhyrnings, sem lagt er til að verði friðað fyrir orkunýtingu. mbl.is/RAX

Umhverfisstofnun hefur lagt fram til kynningar friðlýsingu þriggja svæða á hálendinu fyrir orkunotkun á grundvelli flokkunar þeirra í verndarflokk rammaáætlunar. Svæðin sem um ræðir eru vatnasvið Hólmsár, Jökulfalls og Hvítár og Tungnaár. Þetta er í fyrsta skipti sem sendar eru út til umsagnar tillögur að friðlýsingum einvörðungu á grunni rammaáætlunar.

Friðlýsingin nær ekki til virkjanahugmynda sem komið hafa til umfjöllunar og eru neðar í vatnasviði ánna.

Stórt skref í náttúruvernd

„Þessar friðlýsingar eru stórt skref í náttúruvernd á Íslandi og loksins sjáum við til lands

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

hvað varðar að uppfylla lagaskyldur okkar um vernd svæða í rammaáætlun,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Fleiri svæði koma á næstu vikum.“

Svæðin hafa öll verið í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt samþykkt Alþingis frá árinu 2013. Frestur til athugasemda við friðlýsingartillögurnar er til og með 14. desember.

Í rammaáætlun eru virkjanakostir sem fram koma flokkaðir í þrjá flokka: Nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Til að tryggja endanlega verndun eru svæði friðlýst. 

Guðmundur Ingi kynnti áform um átak í friðlýsingarmálum á fundi ríkisstjórnarinnar í sumar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um slíkt átak, þar með talið að friðlýsa svæði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar, svæði á eldri náttúruverndaráætlun sem og að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna.

Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu.
Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu. Af vef Umhverfisstofnunar

Varðandi friðlýsingartillögurnar sem nú hafa verið kynntar bendir Guðmundur á að tillögurnar miði að því að umrædd svæði verði friðuð fyrir orkunotkun samkvæmt lögum um rammaáætlun. Ekki sé verið að fjalla um aðra friðlýsingu, s.s. vegna annarrar landnýtingar. Á þeim verða hins vegar ekki reistar stærri virkjanir. Í heild eru í verndarflokki rúmlega tíu svæði með um tuttugu virkjanakostum sem ekki njóta enn friðlýsingar.

Minni virkjarnir ekki í rammaáætlun

Í rammaáætlun er ekki fjallað um virkjanakosti á vatnsafli sem eru undir 10 MW og í jarðvarma undir 50 MW. Hugmyndum um slíkar virkjanir hefur fjölgað nokkuð síðustu ár og fara því ekki til umfjöllunar í verkefnastjórn rammaáætlunar hverju sinni. Guðmundur Ingi segir til greina koma að endurskoða þessi stærðarmörk.

„Við höfum séð ýmsar virkjanahugmyndir skjóta upp kollinum sem eru rétt undir tíu megavöttum en gætu valdið umtalsverðum og jafnvel heilmiklum umhverfisáhrifum. Þannig að ég tel að það sé framtíðarverkefni að endurskoða þessi viðmið.“

Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Hólmsár.
Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Hólmsár. Af vef Umhverfisstofnunar

Að loknum kynningartíma tillagnanna tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra.

Rannsaka efnahagsleg áhrif

Guðmundur Ingi segir að í tengslum við átak í friðlýsingum sé verið að efla vinnu við að greina tækifæri sem geta falist í friðlýsingum, þ.e. efnahagsleg tækifæri byggða með tilliti til byggðaþróunar. „Í því tilliti settum við í gang fyrr á þessu ári rannsókn á efnahagslegum áhrifum ellefu friðlýstra svæða á landinu,“ segir Guðmundur Ingi en rannsóknin er unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar er fylgt aðferðafræði sem beitt hefur verið í Bandaríkjunum og Finnlandi. Henni hefur þegar verið beitt á eitt friðlýst svæði á Íslandi: Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

„Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að friðlýsingin skilaði 3,9 milljörðum króna árlega í þjóðarbúið og af því yrðu um 1,8 milljarðar eftir heima í héraði.“

Ráðherrann segist eiga von á að niðurstöðurnar liggi fyrir nú í haust og verði kynntar á Umhverfisþingi í byrjun nóvember. „Með þessu erum við að reyna að auka þekkingu á efnahagslegu mikilvægi friðlýstra svæða fyrir þjóðfélagið og nærsamfélagið.“

Styrkja byggðir með friðlýsingum

Að auki verður senn ýtt úr vör verkefni þar sem greina á tækifæri byggða á svæðum sem eru á eldri náttúruverndaráætlunum en hafa ekki enn verið friðlýst. „Það er ekkert launungarmál að það hefur gengið mjög hægt að friðlýsa ýmis svæði sem eru á náttúruverndaráætlunum,“ segir Guðmundur Ingi. „Þetta er okkar leið til þess að nálgast viðfangsefnið út frá bæði náttúruvernd og efnahagslegum hagsmunum. Markmiðið er að styrkja með friðlýsingum, ekki bara vernd náttúrunnar, heldur líka byggðaþróun, sérstaklega í dreifðari byggðum, greina hvaða tækifæri felast í því fyrir þessar byggðir að svæði hljóti friðlýsingu og fái þar með ákveðinn sess, nokkurs konar merkimiða, enda merkileg og mikilvæg náttúruverndarlega séð.“

Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu.
Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu. Af vef Umhverfisstofnunar

Hagfræðistofnun Íslands vinnur nú að rannsóknaráætlun í tengslum við þetta verkefni. Guðmundur vonast til að verkefnið geti svo hafist bráðlega. Hann segir ekki endanlega búið að ákveða hvaða svæði verða fyrir valinu en að við valið sé litið til eldri náttúruverndaráætlana og mögulega annarra svæða. „Þetta er verkefni sem þarf að vinna með heimafólki alveg frá upphafi.“

Guðmundur Ingi segir mikilvægt að fræða fólk um hvað felst í því þegar svæði er friðlýst. Margir flokkar friðlýsinga séu í boði. „Það er útbreidd mýta að það að friðlýsa eitthvað þýði að þar með megi lítið sem ekkert aðhafast í framhaldinu. En innan friðlýstra svæða, eins og Vatnajökulsþjóðgarður er gott dæmi um, er rými fyrir ákveðna landnýtingu, svo sem beit og veiðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert