„Mjög góðar fréttir“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það mjög góðar fréttir að flugfélagið WOW air sé að takast að afla sér viðbótarfjármuna.

„Það er búið að vera vitað mál í nokkurn tíma að fyrirtækið sé að afla sér viðbótarfjármuna. Það eru mjög góðar fréttir það skuli vera að takast,“ sagði Sigurður Ingi í útvarpsþættinum Í vikulokin á Rás 1.

Aðspurður sagði hann ríkisstjórnina hafa haft áhyggjur af stöðu mála og að jákvætt sé að hún sé farin að skýrast.

„Við erum búin að fylgjast mjög náið með ferlinu síðustu daga,“ sagði hann og nefndi að flugrekstur sé háður opinberum leyfum hérlendis og bætti við að hann væri einnig mikilvægur fyrir efnahaginn. 

Flugvél WOW air.
Flugvél WOW air.

Samráðshópur fjögurra ráðuneyta um kerfislega mikilvæg fyrirtæki var stofnaður í vor. Að sögn Sigurðar Inga hefur hópurinn skoðað mismunandi viðbragðsáætlanir vegna framtíðar WOW air og einnig hefur hann metið hversu mikilvæg flugþjónustan er efnahagsástandinu í landinu.

Hann sagði vonir standa alltaf til þess að fyrirtæki á markaði bjargi sér. Ríkisvaldið eigi ekki að ganga inn í fyrirtæki nema í ýtrustu neyð.

Hann bætti við að á næsta ári verði vinnu lokið við sérstaka flugstefnu á vegum stjórnvalda.

Sigmundur Davíð „skaut í allar áttir“

Spurður út ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á Alþingi þar sem hann skaut föstum skotum á fyrrverandi félaga sína í Framsóknarflokknum sagði Sigurður Ingi:

„Þetta var ræða þar sem menn tóku haglabyssuna og skutu í allar áttir á allt og alla,“ sagði hann og talaði um ræðuna sem hefðbundna hjá forystumanni stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu sem gagnrýnir fjárlagafrumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert