Hlaut formlega áminningu

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfestir að hann hafi hlotið formlega áminningu vegna óviðeigandi kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrirtækisins fyrir þremur árum.

„Ég hef iðrast þessa æ síðan. Ég fór strax í kjölfarið í áfengismeðferð og leitaði mér einnig viðeigandi aðstoðar,“ segir Ingvar í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Vegna fyrirspurna vil ég staðfesta að ég hlaut formlega áminningu vegna óviðeigandi kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrirtækisins fyrir 3 árum síðan. Ég hef iðrast þessa æ síðan. Ég fór strax í kjölfarið í áfengismeðferð og leitaði mér einnig viðeigandi aðstoðar.

Meðfylgjandi er afrit af áminningunni

Ingvar Stefánsson

framkvæmdastjóri fjármála OR

Fyr­ir helgi var greint frá því að fram­kvæmda­stjóra Orku náttúrunnar, Bjarna Má Júlí­us­syni, hefði verið sagt upp störf­um vegna óviðeig­andi fram­komu hans gagn­vart sam­starfs­fólki.

Í morg­un skrifaði Áslaug Thelma Ein­ars­dótt­ir, sem var sagt upp störf­um hjá ON fyr­ir viku, færslu á Face­book, þar sem kom fram að hún hefði margoft leitað til starfs­manna­stjóra ON vegna óviðeig­andi fram­komu Bjarna Más Júlí­us­son­ar 

Fyrr í kvöld óskaði forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur eftir því að stíga tímabundið til hliðar vegna málsins. 

RÚV greindi frá því í kvöld að ásak­an­ir um al­var­leg kyn­ferðis­brot urðu til þess að Þórður Ásmunds­son, sem átti að taka tíma­bundið við sem fram­kvæmda­stjóri Orku nátt­úr­unn­ar, tek­ur ekki við starf­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert