Borgin skoði málið þegar rannsókn lýkur

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að víða þurfi …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að víða þurfi að taka til hendinni til þess að breyta þeirri vinnustaðamenningu sem því miður virðist hafa verið landlæg í samfélaginu mjög lengi. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill gefa stjórn Orkuveitunnar ákveðið svigrúm til að vinna að þeim málum sem tengjast uppsögnum innan Orku náttúrunnar.

„Þetta eru mjög alvarleg mál sem eru að koma upp. Stjórn fyrirtækisins sem er með þetta á sínu borði lítur þetta alvarlegum augum. Reykjavíkurborg hefur verið mjög skýr í sinni afstöðu, bæði í kjölfar #MeToo-byltingarinnar og í tengslum við kynferðislega áreitni, alveg frá upphafi og mér finnst þau skilaboð sem koma frá stjórninni að þetta sé tekið föstum tökum,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

Málin sem um ræðir er uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem hún teng­ir við kvart­an­ir henn­ar und­an hegðun Bjarna Más Júlí­us­son­ar, fram­kvæmda­stjóra ON, sem var sagt upp störf­um síðastliðinn miðviku­dag. Þá er und­ir­bún­ing­ur að rann­sókn innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar á um­rædd­um mál­efn­um OR þegar haf­inn og hefur Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, óskað eftir því að stíga til hliðar á meðan rannsóknin fer fram.

Skiptir mestu máli að úttektin njóti trausts allra

Dagur telur ekki ólíklegt að málið komi til kasta eigenda, það er Reykjavíkurborgar, þegar rannsókn innri endurskoðunar er lokið. „Við sem eigendur sjáum hver niðurstaðan verður og getum dregið af því lærdóm.“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í OR, og Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hafa báðar bent á mögulega hags­muna­árekstr­a vegna þess að Reykja­vík­ur­borg á meiri­hlut­ann í Orku­veit­unni. Því væri betra að fá ut­anaðkom­andi aðila.

„Mín afstaða er sú að þetta er eitthvað sem stjórnin verður auðvitað að ræða. Það skiptir miklu máli og langmestu máli að sú úttekt sem nú fer fram njóti trausts allra þannig að ekki sé hægt að draga niðurstöðuna í efa og ég treysti stjórninni fyrir því verkefni eins og öðru í þessu,“ segir Dagur.

Þá telur hann að það sé fullt tilefni til þeirrar úttektar sem stjórnin ætlar að gera, meðal annars á vinnustaðamenningunni. „Við þurfum mjög víða að taka til hendinni til þess að breyta þeirri menningu sem því miður virðist hafa verið landlæg hér í samfélaginu mjög lengi,“ segir Dagur.

Hvað varðar stöðu forstjóra Orkuveitunnar segir Dagur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Bjarna að stíga til hliðar á meðan rannsóknin fer fram.

Hlutverk OR að hafa samband við Áslaugu Thelmu

Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu, vakti athygli á því á Facebook í morgun að þrátt fyrir atburðarás gærdagsins hafi enginn haft samband við eiginkonu hans og beðið hana afsökunar eða veitt henni útskýringar á uppsögn hennar.

„Það mál er í vinnslu innan Orkuveitunnar og er ekki til vinnslu hér af hálfu borgarinnar,“ segir Dagur.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert