Ósk Bjarna tekin fyrir annað kvöld

Stjórn OR mun koma saman á miðvikudagskvöld til að ræða …
Stjórn OR mun koma saman á miðvikudagskvöld til að ræða ósk Bjarna um að víkja tímabundið og taka ákvörðun um hver muni gegna starfi forstjóra meðan á úttektinni stendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir starfsmannafundir hafa verið haldnir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá því að tilkynnt var um uppsögn Bjarna Más Júlíussonar, fram­kvæmda­stjóra Orku náttúrunnar, vegna óviðeig­andi fram­komu gagn­vart starfs­fólki.

Fyrri fundurinn fór fram í gær, en í morgun boðaði Brynhildur Davíðsdóttir stjórnarformaður OR til fundar. Í tilkynningu frá OR segir að á fundinum hafi hún skýrt frá atburðarás gærdagsins þar sem Bjarni Bjarnason óskaði eftir að stíga tímabundið til hliðar úr forstjórastól OR og öðrum trúnaðarstörfum hjá samstæðunni í þágu trúverðugleika þeirrar úttektar á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum sem fyrirhuguð er.

Stjórn OR mun koma saman á miðvikudagskvöld til að ræða ósk Bjarna um að víkja tímabundið og taka ákvörðun um hver muni gegna starfi forstjóra meðan á úttektinni stendur.

Ókyrrð meðal starfsmanna vegna málsins

Á starfsmannafundinum kom meðal annars fram hjá Brynhildi að undirbúningur úttektarinnar væri þegar hafinn. Þá sagði Brynhildur að ósk forstjórans væri til marks um að málið er tekið alvarlega. Einnig lagði hún áherslu á að velferð starfsfólks þurfi ávallt að vera í forgangi og að hegðun, eins og sú sem fjallað hefur verið um, eigi ekki að líðast.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is kom ekkert nýtt fram á fundinum í morgun sem hefur þegar komið fram í fjölmiðlum. Töluverð ókyrrð ríkir meðal starfsmanna vegna málsins og þá sérstaklega hvers vegna ekki hafi verið brugðist við kvörtunum sem bárust vegna óviðeigandi framkomu Bjarna Más.

Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem sagt var upp störfum hjá fyrirtækinu fyrir rúmri viku, greindi frá því á Facebook í gær að hún hafi fyrst kvartað undan hegðun Bjarna Más fyrir einu og hálfu ári síðan. Hún tengir uppsögn sína við kvartanir hennar undan framkvæmdastjóranum fyrrverandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert