Tillaga um nýtt sjúkrahús til borgarráðs

Eyþór lagði fram framsækna sáttatillögu í sjúkrahúsmálum á borgarstjórnarfundi í …
Eyþór lagði fram framsækna sáttatillögu í sjúkrahúsmálum á borgarstjórnarfundi í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það var enginn sem gat mælt gegn þessu,“ segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Borgarstjórn samþykkti í kvöld að vísa tillögu hans um staðarvalsgreiningu fyrir aðra sjúkrahúsuppbyggingu í Reykjavík í borgarráð til úrvinnslu. „Það þarf líka að ná sátt í þessum málum og ekki vera í skotgröfum.“

Eyþór segir ekki seinna vænna að fara af stað með staðarvalsgreiningu fyrir annað sjúkrahús nú þegar sér fyrir endann á framkvæmdum við Hringbraut. „Við höfum séð það að stór verkefni fara stundum af stað án nægs undirbúnings, sem verður til þess að þau verða umdeild og fara fram úr áætlun.“

„Bæði sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk eiga að geta átt val um fleiri en einn vinnustað,“ segir Eyþór, og að borgin sem höfuðborg eigi að bjóða upp á bestu valkostina fyrir stofnanir eins og spítala. Það sé hins vegar ekki staðan í dag.

Borgin tapað stofnunum til Kópavogs

„Borgin hefur verið að tapa í samkeppni við Kópavog og önnur sveitarfélög. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Íslandsbanki og fleiri hafa farið þangað vegna þess að það er enginn staður fyrir stofnanir af þeirri stærðargráðu í borginni, hvað þá nýtt sjúkrahús. Við hyggjum að framtíðinni. Hún kemur fyrr en okkur grunar.“

Eyþór er að vonum ánægður með þá sátt sem virðist vera um málið innan borgarstjórnar. „Nú er bara að sjá hvort efndir fylgi orðum. Við munum fylgja því fast á eftir.“

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra við vinnslu fréttarinnar.

Tillaga Eyþórs í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert