15 mánuðir fyrir kókaíninnflutning

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Arturas Bieliunas í fimmtán mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Hann var fundinn sekur um að hafa í júní síðastliðnum staðið að innflutningi á rúmu kílói af kókaíni til landsins sem hafði 37% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hérlendis í ágóðaskyni.

Bieliunas, sem er litháískur ríkisborgari, flutti fíkniefnin til Íslands sem farþegi í flugi frá Köln í Þýskalandi til Keflavíkurflugvallar, falin innvortis í líkama sínum. Hann játaði brot sitt við þingfestingu málsins. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 11. júní.

Hann var dæmdur til að greiða tæpa eina og hálfa milljón króna í sakarkostnað.

Ákærði sæti jafnframt upptöku á 1.038,42 grömmum af kókaíni.

Í forsendum og niðurstöðu dómsins kemur fram að til málsbóta fyrir ákærða hafi verið játning hans.

Einnig það að ákærði hafi einungis komið að flutningi efnanna hingað til lands. Hann hafi hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins.

Við ákvörðun refsingar var einnig tekið mið af styrkleika efnanna, en styrkleiki þess kókaíns sem ákærði flutti til landsins var vægur, að því er segir í dóminum, eða nærri þekktum neyslustyrk efnisins hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert