Fá ekki að rifta kaupum vegna myglu

Dómurinn taldi að kaupendur hefðu ekki gripið til viðeigandi ráðstafana …
Dómurinn taldi að kaupendur hefðu ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að takmarka tjón. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur staðfesti í dag þann dóm Héraðsdóms Reykjaness frá því í febrúar á síðasta ári að kaupsamningi um fasteign í Garðabæ verði ekki rift vegna galla og að kaupendum beri að greiða seljanda eftirstöðvar af kaupverði eignarinnar. Seljanda var hins vegar gert að greiða kaupendum skaðabætur vegna vatnstjóns sem varð á eigninni tveimur dögum fyrir afhendingu hennar.

Kaupendur keyptu eignina 30. júní árið 2014 á 71 milljón króna, en afhending fór fram 1. ágúst sama ár. Tveimur dögum fyrir afhendingu upplýsti seljandi að vatnstjón hefði orðið á eigninni vegna leka í þvottahúsi. Þegar tjónið var metið komu hins vegar í ljós frekari rakaskemmdir og mygla og vildu kaupendur meina að eignin hefði verið haldin þeim göllum við afhendingu. Þau greiddu því ekki eftirstöðvar kaupverðs, tæpar 28 milljónir, eins og kveðið var á um í kaupsamningi.

Seljandi höfðaði þá mál á hendur kaupendum sem kröfðust þess að kaupsamningi yrði rift og til vara að þau ættu rétt á skaðabótum eða afslætti af kaupverði fasteignarinnar. Fyrir lá að vatnsleki varð fyrir afhendingu og bar seljandi þá enn ábyrgð á eigninni. Dómurinn féllst hins vegar á það með seljanda, að rakaskemmdir hefðu ágerst verulega frá afhendingartíma fasteignarinnar og þar til vettvangsskoðun yfirmatsmanna fór fram um einu og hálfu ári síðar. Talið var að kaupendur hefðu ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að takmarka tjón á fasteigninni. Voru þeir því taldir bera halla af skorti á sönnun þess að hún hefði verið haldin þeim miklu raka- og mygluskemmdum við afhendingu, sem gerð var grein fyrir í yfirmatsgerð.

Því var fallist á kröfu seljanda um að kaupendur skyldu greiða eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar að frádregnum skaðbótum upp á rúmlega eina milljón króna. Þá upphæð sem lekatjónið var metið á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert