„Fólk er bara í áfalli“

Þota Icelandair.
Þota Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi

„Fólk er bara í áfalli. Því finnst þessar aðgerðir ganga töluvert lengra en góðu hófi gegnir,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, um viðbrögð félagsmanna sinna við aðgerðum Icelandair í starfsmannamálum.

Félagið heldur opinn fund með félagsmönnum sínum í hádeginu á morgun vegna málsins.

Berglind segir ákvörðun Icelandair um að setja flugfreyjum og flugþjónum afarkosti hafa gífurleg áhrif á starfsmenn og nefnir að um sé að ræða alvarlegar þvingunaraðgerðir af hálfu Icelandair. „Starfsmenn hafa ráðið sig ráði sig í hlutastöf af ýmsum ástæðum. Þessi vinna er þess eðlis að hún kallar á mjög mikla fjarveru og þarna hefur starfsmönnum verið gert kleift að samræma fjölskyldu, einkalíf og svo vinnu," greinir hún frá.

Þar sem aðgerðirnar falla undir lög um hópuppsagnir var Icelandair búið að funda með stéttarfélaginu og greina því frá stöðu mála. „Þá mótmæltum við þessu harðlega og skoruðum á þau að endurskoða ákvörðun sína, sem þeir og gerðu ekki.“

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Ljósmynd/Af heimasíðu Flugfreyjufélagsins

Undirbúningur er hafinn að því að stefna málinu til Félagsdóms enda segir Berglind að Icelandair sé að brjóta gegn kjarasamningi.

Hún segir einnig hugsanlegt að ákvörðunin brjóti gegn ákvæðum annarra laga, þar sem hún beinist eingöngu að einum hópi innan fyrirtækisins. Þannig gæti verið um að ræða brot á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Þvert á venjur og hefðir innan Icelandair

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, sagði í samtali við mbl.is fyrr í morgun að félagið sé ekki að brjóta gegn kjarasamningum með aðgerðunum og að um nauðsynlega hagræðingu sé að ræða

Spurð út í ummæli hans segir Berglind að Icelandair hafi í gegnum tíðina sjálft óskað eftir því að flugfreyjur taki að sér hlutastörf þegar erfiðleikar hafi steðjað að hjá fyrirtækinu til þess að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir. Þannig hafi verið tryggt að þekking og reynsla tapist ekki hjá félaginu.

„Þarna er verið að fara þvert á þetta og þær venjur og hefðir sem hafa skapast innan fyrirtækisins. Þetta er þvert á þau sjónarmið í landinu þar sem er verið að tala um styttingu vinnuvikunnar. Þetta er eina leiðin sem flugfreyjur hafa til þess að stytta vinnuvikuna. Þessi vinna kallar á gífurlega fjarveru frá fjölskyldu og heimili,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert