Gert að greiða fyrrverandi starfsmanni 3 mánaða laun

Ekki þótt sannað að ráðningarsambandi hefði verið slitið.
Ekki þótt sannað að ráðningarsambandi hefði verið slitið. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desember á síðasta ári, um að vinnuveitandi skuli greiða fyrrverandi starfsmanni þriggja mánaða laun auk orlofs þar sem ósannað þykir að ráðningarsambandi hafi verið slitið þegar starfsmaðurinn varð óvinnufær vegna veikinda á meðgöngu. Starfsmaðurinn var nýlega orðinn fastráðinn þegar veikindin komu upp.

Vildi vinnuveitandi meina að starfsmaðurinn hefði látið af störfum í nóvember árið 2015 þegar veikindaleyfi hófst, en í málinu lá fyrir læknisvottorð vegna erfiðleika á meðgöngu. Starfsmaðurinn, kona sem gekk með tvíbura, var þar sögð með öllu óvinnufær. Meðal málsgagna var einnig tilkynning til Fæðingarorlofssjóðs, undirrituð af framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem konan starfaði hjá, um að starfshlutfall hennar yrði 100 prósent síðustu fimm mánuðina fram að fæðingu tvíburanna. Í dómnum segir að í þessu felist vísbending um að litið hafi verið svo á að konan hafi verið í fullu starfi og ráðningarsambandi því ekki slitið.

Þegar konan hugðist snúa til baka úr fæðingarorlofi var henni tjáð búið væri að ráða annan starfsmann í hennar stað. Sagðist hún í kjölfarið hafa gert samkomulag við yfirmann sinn um að hún fengi greidd laun í þrjá mánuði auk orlofs. Þegar hún gekk á eftir greiðslunum kannaðist hins vegar enginn við samkomulagið

Hæstiréttur staðfesti að konan hefði í fæðingarorlofinu öðlast rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests í samræmi við kjarasamningsákvæði. Hún hefði því hvorki glatað réttindum sínum vegna tómlætis né annarra atvika. Þá staðfesti hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að vinnuveitandinn bæri hallann af sönnunarskorti á því  hvort ráðningarsambandi hafi verið slitið þegar veikindaleyfi hófst eða ekki.

Vinnuveitandanum var var því gert að greiða konunni rúma eina og hálfa milljón, ásamt dráttarvöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert