Fulltrúar barna af landinu öllu komi saman

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti frumvarp til breytinga laga um umboðsmann …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti frumvarp til breytinga laga um umboðsmann barna á ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérstakt barnaþing mun fara fram á tveggja ára fresti undir stjórn umboðsmanns barna, samkvæmt frumvarpi um endurskoðun laga um umboðsmann barna sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórninni í morgun.

Á barnaþinginu munu börn hvaðanæva að á landinu koma saman og ræða þau mál sem þau vilja ræða. Forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að ráðstafanir verði gerðar til þess að þátttaka barna geti verið óháð bæði búsetu þeirra og stöðu, en það verði nánar útfært af umboðsmanni barna.

„Þetta verður unnið í nánu samstarfi við skóla í kringum landið og við sjáum fyrir okkur að þar verði jafnvel málin sett á dagskrá í aðdraganda barnaþings og síðan mæti á þingið fulltrúar barna af landinu öllu og ræði þau mál sem hafa verið í deiglunni,“ segir Katrín.

„Lýðræðismenntun er ein af grunnstoðum aðalnámsskrár og við vitum að ýmis lönd hafa verið að reyna við þetta fyrirkomulag að vera með sérstakt þing barna og við erum mjög spennt að setja þetta í gang undir forystu umboðsmanns barna“

Umboðsmanni gert að safna gögnum um stöðu barna

Frumvarpið hefur fleiri breytingar í för með sér, en barnaþingið verður sennilega sú sýnilegasta, segir Katrín, en auk ákvæðis um barnaþing verða gerðar breytingar á lögum um umboðsmann barna til þess að tengja skyldur umboðsmanns betur við markmið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur eftir að embætti umboðsmanns barna var stofnað á sínum tíma.

Salvör Nordal gegnir embætti umboðsmanns barna.
Salvör Nordal gegnir embætti umboðsmanns barna. mbl.is/Hari

Einnig er verið að festa í sessi hluti sem umboðsmaður barna hefur tekið upp, til dæmis það að vera með ráðgjafahóp barna sér til aðstoðar.

„Það hefur umboðsmaður gert án þess að það sé lagaskylda, en okkur fannst ástæða til að festa það í sessi með þessum hætti,“ segir Katrín.

Þá er lagt til að umboðsmaður barna fái það hlutverk að safna gögnum um stöðu barna á Íslandi með markvissum hætti.

„Við teljum að það sé mjög mikilvægt fyrir alla stefnumótun í málefnum barna, að það sé ráðist markvisst í þessa gagnasöfnun af hálfu hins opinbera,“ segir Katrín.

Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórninni á ríkisstjórnarfundi í morgun og Katrín segir að hún vonist til þess að hún nái að ræða það á Alþingi „eins fljótt og auðið er“ og að hún telji að góð samstaða ætti að skapast um málið á þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert