Skýrt að framkvæmdir við borgarlínu hefjist 2020

Dagur segir að vel þurfi að halda á spöðunum við …
Dagur segir að vel þurfi að halda á spöðunum við undirbúning og skipulag. mbl.is/​Hari

„Þetta hefur mjög mikla þýðingu. Við náðum saman fyrr á þessu ári um meginverkefnin í samgöngumálum, Borgarlínu og fjölda verkefna sem lúta að stofnvegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu hausti klárum við viðræður um það hvernig við tryggjum fjármögnun á þessum pakka sem alls er yfir 80 milljarðar í heild sinni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um viljayfirlýsingu sem samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og samgönguráðherra undirrituðu í dag.

Í yfirlýsingunni er lýst yfir vilja til að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður þeirra viðræðna eiga að liggja fyrir í síðasta lagi 15. nóvember næstkomandi.

„Það sem er sérstaklega mikilvægt er að það er kveðið skýrt á um að framkvæmdir við borgarlínu hefjist árið 2020. Þannig við þurfum að halda vel á spöðunum við undirbúning og skipulag til að það náist“

Eitt af því sem Degi finnst skipta hvað mestu máli varðandi yfirlýsinguna er að með henni er verið að eyða óvissu um að ríki og sveitarfélög standi saman að sýn á mikilvægustu framkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu

„Nú er verið að fara saman í það að forgangsraða, ákveða fyrirkomulag fjármögnunar og útfærslu verkefna og setja inn í eina heildstæða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og almenningssamgöngukerfi.“

Gjaldtökuheimildir tengjast orkuskiptum

Dagur bendir á tími til þessara vinnu sé naumur og því verðist hafist handa strax eftir helgi. „Henni er gefinn mjög lítill tími því hún að koma inn í samgönguáætlun, fjármálaáætlun ríkisstjórnar og inn í fjárfestingaráætlun sveitarfélaganna til næstu ára.“

Hann segir menn þó búa að miklum sameiginlegum undirbúningi. Tillögurnar liggi fyrir, sem og grunnkostnaðurinn. Fjármögnunarþátturinn sé hins vegar eftir.

„Auðvitað fer sumt inn á þær áætlanir sem fyrir eru og eru hluti af þeim, en það verða líka skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir sem ríkið hefur verið með til skoðunar, gagnvart samgöngukerfinu í heild sinni og hugsanlega gjaldtökuheimildir sveitarfélaganna í tengslum við einstaka framkvæmdir.“

Hvað hugsanlegar gjaldtökuheimildir varðar segir Sigurður Ingi Jóhannesson samgönguráðherra þær einnig tengjast því að verið sé að fara í orkuskipti í samgöngum.

„Við þurfum hvort eð er að breyta tekjukerfi samgangna á Íslandi. Við munum fá minna út úr eldsneytisgjöldunum sem hafa runnið til vegagerðar eða samgangna. En samhliða því eru menn að skoða hvaða leiðir hægt er að nýta til að breyta þessu meira í notendagjöld af þeim mannvirkjum sem eru í gangi og þannig fá inn fjárstreymi sem gerir það að verkum að við fáum nýja peninga til að framkvæma meira á styttri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert