Vilja efla Þorlákshöfn enn frekar

Færeyska flutningaskipið Mykines í höfninni í Þorlákshöfn. Þingmenn Suðurkjördæmis vilja …
Færeyska flutningaskipið Mykines í höfninni í Þorlákshöfn. Þingmenn Suðurkjördæmis vilja efla höfnina enn frekar. Ljósmynd/Sveitarfélagið Ölfus

Fimm þingmenn Suðurkjördæmis vilja að Alþingi skipi starfshóp til að móta stefnu um hvernig megi bæta höfnina í Þorlákshöfn enn frekar, svo hún geti vaxið sem inn- og útflutningshöfn. Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sem lögð var fram í gær.

Þingmennirnir segja í greinargerð sinni að siglingar frá meginlandi Evrópu til Þorlákshafnar séu hagkvæmari en til Faxaflóahafna, þar sem siglingartíminn sé 16 klukkustundum styttri. Það skili sér í minni flutningskostnaði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og geti skilað sér í lægra vöruverði fyrir íslenska neytendur, auk þess sem kolefnisfótsporið sé minna sökum styttri siglingartíma.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks, en flokkfélagar hans Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason standa einnig að henni ásamt varaþingmönnunum Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur úr Vinstri grænum og Nirði Sigurðssyni frá Samfylkingu.

Verði þingsályktunartillagan samþykkt mun starfshópi verða gert að skila tillögum fyrir 1. maí næstkomandi um það hvernig megi bæta og auka öryggi og dýpi við innsiglinguna í höfnina og einnig um það hvernig best verði náð árangri í markaðssetningu hafnarinnar hér á landi og erlendis.

Fjallað var um málefni Þorlákshafnar í Morgunblaðinu í gær, en þar kom fram að forsvarsmenn sveitarfélagsins Ölfuss væru í viðræðum við erlenda fjárfesta um mögulega aðkomu að uppbyggingu hafnarinnar.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að vikulegar siglingar færeyska skipafélagsins Smyril Line á milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum, hafi lækkað flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja um 40% og að það sé helsta ástæðan fyrir þeirri velgengni sem Þorlákshöfn og Smyril Line hafa notið, en viðtökur markaðarins hafa verið langt umfram væntingar.

Siglingarnar hófust í apríl í fyrra, en sex ára samningur hefur verið gerður á milli sveitarfélagsins Ölfus og Smyril Line um að halda þeim áfram.

„Þessi nýja siglingaleið er styttri en aðrar og flutningsgjöld því lægri um sem nemur 40%. Það ætti að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði á Íslandi og gera útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum,“ segir í greinargerðinni.

„Þær breytingar sem gerðar hafa verið á innviðum hafnarinnar í Þorlákshöfn á liðnum árum hafa tekist framúrskarandi vel og verið langt undir kostnaðaráætlun, en gjörbreytt aðstöðunni við höfnina og gert mögulegt að taka á móti stærstu skipum sem til landsins koma. Það liggur þó fyrir að innsiglingin í höfnina, þegar hvass vindur er að sunnan eða suðaustan, gerir innsiglinguna varasama á stórum skipum með mikið vindfang,“ segja þingmennirnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert