Skoðaði ekki sjúkraskrá af forvitni

Konan taldi að framkvæmdastjórinn hefði skoðað sjúkraskrá hennar í algjöru …
Konan taldi að framkvæmdastjórinn hefði skoðað sjúkraskrá hennar í algjöru tilgangsleysi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Persónuvernd hefur úrskurðað að framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafi mátt skoða sjúkraskrá konu sem hafði kvartað til landlæknis yfir veitingu þjónustu á heilbrigðisstofnuninni. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Í kvörtun konunnar til Persónuverndar segir að svo virðist sem framkvæmdastjórinn hafi skoðað sjúkraskrá hennar í algjöru tilgangsleysi. Það hafi verið óþarft og í raun óskiljanlegt að leitaði hafi verið álits hans vegna máls konunnar hjá landlækni. Hann hafi aldrei hitt hana eða hringt í hana. Þá er tekið fram að hann hafi ekki leitað samþykkis konunnar fyrir því að skoða sjúkraskrá hennar við vinnslu greinargerðar sinnar.

Í bréfi framkvæmdastjórans til Persónuverndar segist hann vera ábyrgðarmaður rafrænnar sjúkraskrár og hafi eftirlitsréttindi í því sambandi. Þá sé hann einnig yfirmaður læknisþjónustu. Svo til öll mál sem berist stofnuninni frá Landlækni komi til umfjöllunar hans og svari hann þeim fyrir hönd stofnunarinnar. Til þess að geta sinnt þessu hlutverki sé óhjákvæmilegt fyrir hann að fara yfir sjúkraskrá viðkomandi sjúklinga.

Hann hafi aldrei skoðað sjúkraskrár sjúklinga sér til skemmtunar eða vegna forvitni. Hann hafi eingöngu verið að sinna starfi sínum samkvæmt þeirri ábyrgð sem honum væri falin.

Í úrskurði Persónuverndar segir að ekki liggi annað fyrir en að skoðun framkvæmdastjórans á sjúkraskrá konunnar hafi verið liður í að veita landlækni skýringar vegna máls sem var á borði embættisins vegna kvörtunar yfir meðferð á heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ekki liggi fyrir að skoðunin hafi verið umfram það sem talið var nauðsynlegt var til að veita þær skýringar. Persónuvernd telur því að umrædd skoðun hafi samrýmst lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert