8 ára fær ekki nauðsynleg gigtarlyf

Lyfið heitir Naproxen E Mylan.
Lyfið heitir Naproxen E Mylan. Skjáskot/Twitter

„Ég hef ekki undan að svara landsmönnum sem vilja bjóða mér lyfin sín. Viðbrögðin hafa verið svakalega góð og það hefur ekki stoppað síðan viðtalið birtist. Þetta eru tuttugu töflur hér og þar en það er engin lausn,“ segir Sigurveig Margrét Stefánsdóttir læknir í samtali við mbl.is.

Átta ára sonur hennar er með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm en fær ekki lyfin sem hann þarf á að halda þar sem þau eru ekki til á landinu. Hann finnur fyrir miklum verkjum og hefur misst úr skóla vegna þess. Sigurveig skrifaði færslu á Facebook þar sem hún lýsir ástandinu í lyfjamálum á Íslandi sem er ekki gott samkvæmt henni.

RÚV fjallaði um málið í kvöldfréttum.

„Kári litli Stefán hefur nú verið síðan í febrúar á Naproxen E Mylan sem er bólgueyðandi gigtarlyf en hann hefur eins og flest börn verið á þeirri útgáfu sem kallast sýruþolin. Í júní fengum við að vita af yfirvofandi skorti og náði ég einu glasi þá og höfum við svo náð að skrapa saman frá vinum og ættingjum, aðallega útrunnum lyfjum. Nú er svo komið að við erum orðin uppiskroppa, höfum reynt hina útgáfuna en hún þolist alls ekki í maga á honum og sama gilti með bróður hans, hann varð andsetinn af að prófa hana en hann hefur á sínum slæmu köflum allt frá 5 ára verið á hinu án nokkurra aukaverkana,“ skrifaði Sigurveig í færslunni sem hefur vakið mikil viðbrögð.

Hún sem læknir hefur lengi vitað af bagalegri stöðu lyfjamála á Íslandi og finnst fólk ekki hafa nógu hátt um ástandið. 

„Við höfum alls ekki haft nógu hátt um þetta ástand, frekar bitið á jaxl og bölvað á kaffistofum. Ég get samt ekki orða bundist núna þegar ég tilheyri aðstandanda-sjúklingahóp og þarf að leita á náðir „Snapað og sníkt“ eins og sjúklingar hafa verið að gera síðustu marga mánuði með hin ýmsu lyf,“ skrifar hún.

„Ég er læknir sjálf og þetta eru algeng hjartalyf, verkjalyf og sýklalyf. Þegar maður ávísar lyfi veit maður aldrei hvort það er til í apóteki, segir hún við mbl.is. 

Fjallað var um mál Láru Guðrúnar Jóhönnudóttur í síðustu viku en krabbameinslyf sem hún þar á að halda hafa verið nánast ófáanleg síðan í maí. Heilbrigðisráðherra var spurður um málið á Alþingi í síðustu viku og var hissa á stöðunni. Sigurveig segir að ráðherra hafi komið af fjöllum og ætlar að bíða og sjá varðandi það hvort hún leitar formlegra svara frá heilbrigðisyfirvöldum vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert