Velt verði við hverjum steini

Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

„Mér hefur fundist þetta afskaplega ánægjulegur dagur og það sem stendur upp úr hjá mér er að þótt fólk hafi núna gengið í gegnum nokkrar erfiðar vikur er það almennt mjög stolt af sínum vinnustað og líður vel í vinnunni. Það er mín upplifun eftir daginn,“ segir Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is en hún kom til landsins síðustu nótt og var fyrsti dagur hennar á forstjórastóli í dag.

Helga fundaði með stjórn Orkuveitunnar í dag en Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, óskaði eftir því í síðustu viku að víkja tímabundið úr starfi á meðan óháð úttekt yrði gerð á vinnustaðamenningu fyrirtækisins vegna mála tiltekinna starfsmanna sem verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum. Helga segir að markmiðið sé að velta við hverjum steini og komast til botns í því hvort eitthvað þurfi að laga og þá hvað þurfi að gera til þess.

Helga segir að það sé skýr afstaða stjórnar Orkuveitunnar að fyrirhuguð úttekt verði forsenda aðgerða. „Það verði sem sagt gripið til úrbóta ef þeirra er talin þörf á grundvelli þessarar úttektar. Ég skynja mjög sterkan og raunverulegan vilja til þess og auðvitað, eins og ég upplifi það, er það töluvert stórmannlegt af forstjóranum að standa upp til þess að segja: Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að þetta verði eins óháð og hægt er.“ 

Spurð hvenær hún muni funda með Áslaugu Thelmu Einarsdóttir, sem sagt var upp störfum sem forstöðumanni einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, fyrr í þessum mánuði og gagnrýnt hefur fyrrverandi forstjóra ON, Bjarna Má Júlíusson, fyrir óviðeigandi hegðun gagnvart starfsfólki fyrirtækisins, segir Helga að ekki hafi verið ákveðið hvenær fundurinn fari fram en líklega á fimmtudaginn eða föstudaginn.

Fram hefur komið að Áslaug hyggist leita réttar síns vegna uppsagnarinnar. Helga segir að fyrsta verkefnið verði væntanlega að svara bréfi frá lögmanni Áslaugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert