Tjónvaldur undir áhrifum vímuefna

Ung kona gistir fangageymslur lögreglunnar eftir að hafa valdið umferðaróhappi í Breiðholti á níunda tímanum í gærkvöldi. Reyndist hún vera undir áhrifum fíkniefna ásamt því að hafa aldrei fengið ökuréttindi. Um ítrekað brot er að ræða.

Skömmu fyrir miðnætti hafði lögreglan afskipti af bifreið á bensínstöð í Breiðholti þar sem bifreiðin var með röng skráningarnúmer. Ökumaðurinn og farþegi náðu að forða sér er lögregla kom á vettvang. Lögreglan klippti númerið af bifreiðinni og var hún færð í stæði.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var heldur ekki með ökuskírteini á sér, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert