Fólk fylgist með veðurspám

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáin í dag er slæm víða á landinu og hefur verið gefin út gul viðvörun á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Suðausturlandi og á miðhálendinu. Gert er ráð fyrir hríð inn til landsins og færð gæti spillst. Vindurinn fer í allt að 40 metra á sekúndu þegar verst lætur.

Nánar um gular viðvaranir í dag

Í viðvörun á vef Veðurstofunnar kemur fram að von sé á suðvestanhvassviðri eða stormi og talsverðri rigningu á vestanverðu landinu í dag en snjókomu og hríðarveðri á fjallvegum norðanlands fram að hádegi. Víða varasamt ferðaveður, einkum á Ströndum, Norðurlandi og á Suðausturlandi. Gengur í hvassa norðvestanátt  austanlands annað kvöld og snarpar vindhviður á sunnanverðum Austfjörðum.

„Gengur á með suðvestanhvassviðri eða -stormi í dag og rignir talsvert á vestanverðu landinu en helst lengst af þurrt fyrir austan og hlýnar smám saman. Þar sem hiti er nærri frostmarki inn til landsins í morgunsárið má reikna með hríðarveðri á fjallvegum norðanlands fram að hádegi.

Dregur talsvert úr vindi og vætu í kvöld og nótt, en á morgun snýst í norðvestanátt með skúrum og síðar éljum en léttir til á Suðausturlandi. Hvessir talsvert fyrir austan annað kvöld og verður þá mjög hviðótt á sunnanverðum Austfjörðum. Jafnframt kólnar í veðri þ.a. hálka getur myndast á vegum. Sunnudagsspáin lítur vel út, hægur vindur og svalt í veðri. Vegfarendur helgarinnar ættu að fylgjast vel með veðurspám og færð og ekki láta hvassviðri, hríðarveður né hálku koma sér í opna skjöldu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin næstu daga

Suðvestanátt, 13-23 m/s í dag, hvassast NV-til. Talsverð rigning á vestanverðu landinu og útlit fyrir hríðarveður á fjallvegum norðanlands fram að hádegi, en annars úrkomulítið. Dregur úr vætu og vindi í kvöld og nótt. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast fyrir austan.
Norðvestan 10-15 m/s og skúrir eða él á morgun, en bjartviðri SA-lands. Hvessir talsvert A-lands annað kvöld, en lægir heldur NV-til. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:

Norðan og norðvestan 8-15 m/s og skúrir, en síðar él á N- og A-landi, en annars léttskýjað. Hiti 0 til 10 stig, hlýjast með S-ströndinni. 

Á sunnudag:
Vestlæg eða breytileg átt, 5-10 m/s og yfirleitt léttskýjað, en vaxandi suðaustanátt og þykknar upp SV-til um kvöldið. Hiti víða 2 til 6 stig, en vægt frost í innsveitum NA-til. 

Á mánudag:
Suðaustanhvassviðri og talsverð rigning einkum S-lands, og hlýnandi veður, en vestlægari og skúrir um kvöldið. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst. 

Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt N-til, en vestlægari fyrir sunnan og víða skúrir eða él, en léttskýjað SA-lands. Hiti 1 til 6 stig. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi norðaustanátt með rigningu eða slyddu, einkum A-til. 

Á fimmtudag:
Lítur út fyrir svala norðanátt með éljum N-til, en bjartviðri syðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert