Tveggja ára klemmdist illa á Læknavaktinni

Læknavaktin er nú til húsa í Austurveri að Háaleitisbraut.
Læknavaktin er nú til húsa í Austurveri að Háaleitisbraut. mbl/Arnþór Birkisson

Tveggja ára stúlka var hætt komin þegar höfuð hennar klemmdist milli tveggja arma á læknabekk á Læknavaktinni við Háaleitisbraut í gær. Faðir stúlkunnar greindi frá atvikinu í gær og lýsti því hvernig þetta hefði aðeins tekið nokkrar sekúndur og að hún hafi verið orðin rauðblá í framan sökum þrýstings og súrefnisskorts. Sem betur fer kom í ljós að áverkar sem stúlkan hlaut voru ekki alvarlegir þó að hún hafi verið illa marin og bólgin. Rætt var við foreldrana í kvöldfréttum Rúv.

Albert Símonarson lýsir því í færslunni hvernig hann hafi farið með börnin sín á Læknavaktina. Undir lok skoðunar hjá lækni inn á læknastofu hafi tveggja ára dóttir hans stungið sér undir læknabekkinn. Hann hafi ætlað að sækja hana en ekki náð að toga hana til baka. Hún hafi verið föst með höfuðið á milli tveggja arma á bekknum.

„Mér til skelfingar sé ég að armarnir eru að hreyfast. Þeir eru að klemmast saman til að lyfta bekknum upp, og hausinn á henni er fastur á milli. Höfuðið á henni var að kremjast,“ segir Albert í póstinum. Hann fór strax í að reyna að spenna upp bekkinn, en mótorinn hélt áfram að þrengja að dóttur hans. Loks hafi hann komið fingri fyrir í braut armsins þannig að hægði mjög á honum áður en tókst að taka bekkinn úr sambandi.

„Ég hélt að ég væri að fara horfa á tveggja ára gamla dóttir mína deyja fyrir framan mig,“ segir Albert og bætir við að allt í allt hafi þetta örugglega ekki tekið meira en um mínútu. Kom í ljós að dóttir hans hafði lagst ofan á stöng sem liggur eftir endilöngum bekknum þegar hún stakk sér undir hann. Við það hækkar mótorinn bekkinn.

Eftir skoðun á dótturinni kom í ljós að hún væri illa marin og bólgin, en áverkarnir voru annars ekki alvarlegir. Segist Albert vonast til að svona slys geti nýst til að breytt verði um verkferla og viðeigandi ráðstafanir gerðar svo atvik sem þessi endurtaki sig ekki. Segir hann búnað sem þennan ekki eiga að vera á stöðum sem taki á móti fjölda barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert