Bekkirnir óvirkir þar til rannsókn lýkur

Læknavaktin er nú til húsa í Austurveri að Háaleitisbraut 68 …
Læknavaktin er nú til húsa í Austurveri að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík. mbl/Arnþór Birkisson

Læknabekkir á Læknavaktinni eru nú allir óvirkir, þ.e. ekki er hægt að hækka þá eða lækka, á meðan ítarleg rannsókn fer fram á því hvað varð til þess að höfuð lítillar stúlku klemmdist milli tveggja arma eins slíks bekkjar á Læknavaktinni við Háaleitisbraut í fyrradag.

Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, segir að allt verði gert til að tryggja að slys sem þetta eigi sér aldrei aftur stað. Málið verði rannsakað ofan í kjölinn. Þegar hefur verið haft samband við framleiðanda bekkjanna sem og Vinnueftirlitið. Þá verður atvikaskýrsla send embætti landlæknis. Ekki er enn vitað hvort viðkomandi bekkur var bilaður, um það er of snemmt að segja að sögn Gunnars.

Gunnar Örn segir að fylgst sé með líðan litlu stúlkunnar sem klemmdi höfuðið og hafi Læknavaktin rætt við foreldra hennar síðast í morgun. Er stúlkan að sögn foreldranna að jafna sig af áverkunum sem hún hlaut á höfði sínu.

„Við ætlum auðvitað fyrst og fremst að komast að því hvað fór úrskeiðis,“ segir Gunnar Örn í samtali við mbl.is, „og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta.“

Þegar er búið að gera bekkina óvirka eins og fyrr segir. „Við fyrstu sýn þá er allur sá öryggisbúnaður sem þarf að vera til staðar. Það er því hvorki hægt að hækka né lækka bekkina og þannig verður það þar til búið er að skoða málið til fullnustu.“

Bekkirnir á Læknavaktinni eru nýlegir. Þeir voru teknir í notkun í fyrra. Á þeim er sérstök slá og ef á hana er ýtt þá lyftist bekkurinn upp eða niður. „Það er öryggislás sem ætti að koma í veg fyrir að bekkurinn fari upp og niður [án þess að ýtt sé á slána] en stofan var í notkun og bekkurinn því virkur.“

Gunnar segir nýju bekkina hafa leyst af hólmi eldri bekki sem ekki höfðu öryggislása. Þeir nýju eigi því að vera öruggari.

Þegar hefur verið haft samband við framleiðanda bekkjanna, þýska fyrirtækið Dewert.

Gunnar þekkir ekki til eins einasta sambærilegs slyss hér á landi og segir framleiðendur bekkjarins heldur aldrei hafa fengið tilkynningu um slys áður.

Hann segir bekkina hjá Læknavaktinni verða óvirka þar til gengið verður úr skugga um hvað fór úrskeiðis og hvort t.d. breyta þurfi vinnulagi eða öðrum þáttum í umgengni við bekkina.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að svona slys muni ekki eiga sér stað aftur,“ segir Gunnar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert