8% barna byrja tölvunotkun fyrir eins árs aldur

Tækni- og samfélagsbreytingar hafa í för með sér enskuáreiti. Aukin …
Tækni- og samfélagsbreytingar hafa í för með sér enskuáreiti. Aukin enskunotkun gæti hraðað breytingum á íslenskunni að sögn Sigríðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enska er orðin áberandi í málumhverfi íslenskra barna og er viðhorf ungra Íslendinga til enskunnar mjög jákvætt. Fyrstu niðurstöður viðamikillar rannsóknar fræðimanna við Háskóla Íslands á stöðu og framtíð íslenskunnar á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja benda til þess að enskan í málumhverfinu sé meiri og á fleiri sviðum en nokkru sinni fyrr, enskt máláreiti nær til yngri barna en áður og enskunotkun barna og unglinga er að aukast.

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, fara fyrir rannsókninni sem er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís. Hún hófst árið 2016 og er ein sú yfirgripsmesta sem gerð hefur verið á stöðu íslenskrar tungu. Þau munu kynna hluta af fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar á Skólamálþingi Kennarasambands Íslands síðar í dag sem ber yfirskriftina „Íslenskan er stórmál“.

„Með málumhverfi er átt við hversu mikla ensku og íslensku við heyrum, hversu mikið við notum tungumálin,“ segir Sigríður í samtali við Morgunblaðið. „Við erum meðal annars að skoða hvort enskan og þetta aukna enskuáreiti sem óneitanlega hefur aukist með tilkomu netsins, snjalltækja, tölvuleikja og efnisveitna á borð við Netflix og Youtube sé að taka frá íslenskunni.“

Netkönnun með spurningum um m.a. málumhverfi, hversu miklum tíma fólk eyðir á netinu, snjallsímanotkun og notkun ensku og íslensku í ræðu og riti og málkunnáttu var lögð fyrir fimm þúsund manna handahófskennt úrtak. Af þeim eru 3.500 13 ára og eldri og 1.500 þriggja til tólf ára.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að 57 prósent barna í aldurshópnum þriggja til fimm ára byrjuðu að nota tölvur og snjalltæki þegar þau voru tveggja ára eða yngri og átta prósent þeirra byrjuðu fyrir eins árs aldur. Þá nota 19 prósent barna á aldrinum þriggja til fimm ára netið daglega samkvæmt svörum í könnuninni. Sigríður bendir á að líklega sé þar vanmat á ferð frekar en ofmat þar sem foreldrar svara fyrir yngstu börnin og eru líklegri til að gera minna úr netnotkun barna sinna en að ýkja hana.

Að sögn Sigríðar geta tækni- og samfélagsbreytingar haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskuna og þar skipti börn og unglingar mestu, því íslenskan eigi allt sitt undir máltöku og málþroska ungra barna. „Þau þurfa að heyra nægilega íslensku á fyrstu árum ævinnar til að bera málið áfram til næstu kynslóða,“ segir hún.

Nýleg niðurstaða MA-ritgerðar sem var skrifuð innan verkefnisins bendir til þess að 16-20 ára ungmenni sem nota mjög mikla ensku séu líklegri til að samþykkja nýjungar í háttanotkun í íslensku sem ekki samræmast málhefð. „Þessar niðurstöður gætu bent til þess að aukin enskunotkun gæti hraðað málbreytingum sem þegar eru komnar fram í íslensku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert