Læknabekkurinn virkar sem skyldi

Tveggja ára stúlka var hætt komin um síðustu helgi þegar …
Tveggja ára stúlka var hætt komin um síðustu helgi þegar hún klemmdist á læknabekk. mbl/Arnþór Birkisson

Lyfjastofnun gerir engar athugasemdir við læknabekki Læknavaktarinnar, en tveir sérfæðingar stofnunarinnar fóru í eftirlitsferð þangað í morgun eftir að tveggja ára gömul stúlka klemmdist á milli rafknúinna arma á bekk þar um síðustu helgi.

Að sögn Sindra Kristjánssonar, lögfræðings Lyfjastofnunar, tóku sérfræðingar stofnunarinnar myndir og myndskeið, ræddu við starfsfólk og könnuðu virkni tækisins. Einnig var farið yfir notkunarleiðbeiningar bekkjarins og samkvæmt þeim er bekkurinn rétt uppsettur.

Forathugun þeirra gagna sem var aflað hefur leitt í ljós að ekkert er að tækinu og það virkar sem skyldi. Næstu skref eru því að óska eftir upplýsingum frá Læknavaktinni um þjálfun starfsfólks og hvernig kennslu á tækin er háttað.

„Það eru engar athugasemdir gerðar við tækið eða aðstöðuna miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Það er hins vegar ekki hægt að útiloka að eitthvað komi upp við nánari athugun á gögnum, en eins og sakir standa eru engar athugasemdir í bígerð við tækið sjálft,“ segir Sindri.

Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að allir læknabekkir hefðu verið gerðir óvirkir á meðan ítarleg rannsókn færi fram. Var það ákvörðun Læknavaktarinnar og Sindri segir því ekki þörf á því að Lyfjastofnum gefi sérstaklega grænt ljós á að bekkirnir verði teknir aftur í notkun.

Bekk­irn­ir á Lækna­vakt­inni eru ný­leg­ir, en þeir voru tekn­ir í notk­un í fyrra. Á þeim er sér­stök slá og ef á hana er ýtt þá lyft­ist bekk­ur­inn upp eða niður. Öryggislás á að koma í veg fyrir að bekkurinn fari upp og niður án þess að ýtt sé á slána.

Gunn­ar sagðist ekki vita til eins ein­asta sam­bæri­legs slyss hér á landi og sagði fram­leiðend­ur bekkj­ar­ins, þýska fyrirtækið Dewert, held­ur aldrei hafa fengið til­kynn­ingu um slys áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert