Þarf ekki að selja íbúðina sína

mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu húsfélags í fjölbýlishúsi í Garðabæ um að konu sem býr í húsinu verði gert að selja íbúð sína vegna mikils ónæðis.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að margoft hafi verið hringt í lögreglu vegna hávaða úr íbúð konunnar eða í samtals 74 skipti frá því sumarið 2006 og fram í mars á síðasta ári. „Í skýrslum íbúa og fyrrverandi íbúa í húsinu fyrir dómi kom fram að mikið ónæði hafi verið frá íbúð stefndu, bæði að nóttu sem degi, sérstaklega vegna tónlistarflutnings úr stórum hátölurum auk þess sem íbúum stóð ógn af sambýlismanni stefndu,“ segir enn fremur.

Sömuleiðis kemur fram að húsfélagið hafi ítrekað skorað á konuna að taka upp betri hætti og taka tillit til annarra íbúa í fjölbýlishúsinu og hún ítrekað lýst yfir vilja til þess að færa málin til betri vegar. Hins vegar hafi ástandið ekki lagast að mati húsfélagsins. Að lokum hafi húsfélagið samþykkt á fundi tillögu um að konunni yrði gert að selja íbúð sína í húsinu.

Var formaður húsfélagsins um tíma

Konan kannaðist við það fyrir dómi að kvartað hafi verið undan henni en sagði ekki liggja fyrir að hún hafi raunverulega gerst brotleg. Tók hún dæmi af því að lögreglan hafi komið á staðinn nokkrum sinnum á síðasta ári án þess að staðfest hafi verið að hávaði frá íbúð hennar hafi verið yfir mörkum. Þá sagði hún að aðrar leiðir hafi ekki verið fullreyndar.

Konan vildi enn fremur meina að ekki hafi verið rétt að aðvörun staðið sem hún fékk á síðasta ári af hálfu húsfélagsins. Benti hún á að hún væri ekki verr kynnt hjá húsfélaginu en svo að hún hafi verið formaður félagsins um tíma þar til á síðasta ári. Vísaði hún enn fremur í ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og hæstaréttardóma því til stuðnings.

Ekkert ónæði vegna hávaða á þessu ári

Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að aðvörun sem konan fékk frá húsfélaginu hefði ekki borið árangur áður en ákvarðanir voru teknar um að henni yrði gert að selja og bönnuð búseta í húsinu. Þótt háttsemi konunnar og sambýlismanns hennar yrði ekki réttlætt hefði komið fram að ekkert ónæði hefði verið vegna hávaða á þessu ári.

Sambýlismaðurinn hefði að vísu gengið ógnandi á milli íbúða í janúar í þeim tilgangi að reyna að fá eigendur til þess að falla frá málsókninni en hann væri hins vegar fluttur úr íbúðinni fyrir nokkrum mánuðum. Krafa um að flytja úr íbúð sinni og selja hana væri enn fremur mjög íþyngjandi. Konan var því sýknuð af kröfum húsfélagsins og því gert að greiða málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert