Mikill vatnsleki fyrir ofan H&M

Vatnsleki varð á þriðju hæð hússins þegar verið var að …
Vatnsleki varð á þriðju hæð hússins þegar verið var að vinna að slökkvikerfi á þriðju hæðinni. Á jarðhæðinni er H&M að opna næstu helgi. mbl.is/Rax

Mikill vatnsleki kom upp á þriðju hæð einnar nýbyggingarinnar á Hafnartorgi við Geirsgötu í morgun þegar slökkvikerfi á þriðju hæð fór óvart af stað. Verið var að vinna að uppsetningu slökkvikerfisins þegar risalögn fór af stað á þriðju hæð hússins.

Á jarðhæð hússins er H&M verslun að opna næsta föstudag og segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, mikið mildi að mönnum hafi tekist að loka fyrir vatnslekann og hreinsa vatnið vel. „Menn rýmdu búðina en eru að stilla aftur upp núna,“ segir Helgi en bætir við að vatnslekinn hafi ekki haft teljandi áhrif á verslunarrýmið á jarðhæðinni.

Tveir dælubílar voru sendir á vettvang og störfuðu níu slökkviliðsmenn að því að hreinsa vatnslekann í u.þ.b. klukkustund auk fjölda iðnaðarmanna á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert