Jón Grétar hlaut fyrstu verðlaun

Jón Grétar Ólafsson tók við verðlaununum í Hönnunarsafni Íslands í …
Jón Grétar Ólafsson tók við verðlaununum í Hönnunarsafni Íslands í dag. mbl.is/Eggert

Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, í nágrenni við jarðvarmastöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum fyrir verkið Römmuð sýn. Niðurstöður voru kynntar í dag í Hönnunarsafni Íslands.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:

„Römmuð sýn er kröftug og djörf tillaga sem vekur athygli á Þeistareykjum sem áningarstað.

Í verkinu er landslagið hafið upp og rammað inn á skemmtilegan hátt. Verkið býr yfir aðdráttarafli og vekur forvitni þeirra sem leið eiga um svæðið. Upplýsingar um nærumhverfið auka á upplifun verksins. Verkið er ekki tæknilega flókið og vel framkvæmanlegt.“

Verkið Römmuð sýn.
Verkið Römmuð sýn. Ljósmynd/Landsvirkjun

Í öðru sæti lentu Narfi Þorsteinsson, grafískur hönnuður, Adrian Freyr Rodriguez vélaverkfræðingur, Stefán Óli Baldursson myndlistarmaður og Jóhann Ísak Pétursson jarðfræðingur, í þriðja sæti lentu Kristján Breiðfjörð Svavarsson landslagsarkitekt, Röðull Reyr Kárason myndlistarmaður og Snorri Þór Tryggvason arkitekt og í fjórða sæti lentu Ástríður Birna Árnadóttir arkitekt og Karitas Möller arkitekt.

Við sama tilefni var opnuð sýning á þeim fjórum tillögum sem fóru áfram í síðari hluta keppninnar, en hún verður opin almenningi dagana 10.-14. október og verður aðgangur gjaldfrjáls.

Í  safninu stendur nú einnig yfir sýning á ævistarfi arkitektsins Einars Þorsteins Ásgeirssonar (1942–2015). Einar ánafnaði Hönnunarsafninu allt innihald vinnustofu sinnar, en hann var brautryðjandi í rúmfræðirannsóknum og sérfræðingur í margflötungum.

Einar þykir hafa verið á undan sinni samtíð hvað varðar hugmyndir um sjálfbærni, samanber kúluhúsin sem hann hannaði og voru reist upp úr 1980, en fyrsta kúluhúsið sem reist var hér á landi var borholuhús við Kröflu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert