Efla þarf geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslu

Heilsugæslan miðbæ þjónar einkum íbúum í póstnúmeri 101 vestan Snorrabrautar …
Heilsugæslan miðbæ þjónar einkum íbúum í póstnúmeri 101 vestan Snorrabrautar og norðan Hringbrautar og telur upptökusvæðið tæplega 12 þúsund manns. mbl.is/Árni Sæberg

Efla þarf gæða- og umbótastarf á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt því að styrkja geðheilbrigðisþjónustu. Þetta eru helstu niðurstöður úttektar embættis landlæknis á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem birt var í gær.

Í úttektinni kemur fram að sálfræðiþjónusta fyrir börn hefur verið stóraukin. Embætti landlæknis telur æskilegt að á hverri heilsugæslustöð sé þverfaglegt teymi sem sinni 1. stigs geðheilbrigðisþjónustu, bæði fyrir börn og fullorðna og vinni náið með geðheilsuteymunum. Í skýrslunni er bent á að jákvætt sé að Geðheilsuteymi vestur hefur tekið til starfa en alvarlegt er hversu löng bið er eftir þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð og Geðheilsuteymi austur.

Varðandi gæða- og umbótastarf telur embætti landlæknis að brýnt sé að stjórnendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ljúki gerð gæðastefnu og efli gæðastarf hjá heilsugæslunni. Hluti af því verði að ráða gæðastjóra í fullt starf vegna umfangsmikilla verkefna.

Um 390.000 heimsóknir á ári

Í skýrslunni má einnig finna ábendingar til velferðarráðuneytisins sem snúa að því að aðlaga fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar að mönnunarþörf og umfangi starfseminnar. Þá er einnig bent á að skoða þurfi húsnæðismál.

Fram kemur í úttektinni, sem er ein sú umfangsmesta sem embættið hefur ráðist í, að framfarir hafi orðið á starfseminni á liðnum árum, einkum hefur aðgengi að þjónustu verið aukið en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sinnir um 390.000 heimsóknum árlega.

Þegar kemur að mannauðsmálum er það mat embættis landlæknis að á heilsugæslustöðvunum starfi fagfólk sem sinnir starfi sínu af alúð og fagmennsku, stundum við erfiðar aðstæður. Að mati embættisins er nauðsynlegt að gripið verði til markvissra aðgerða til að bregðast við mönnunarvanda, ekki síst til að efla teymisvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert