Fjölmargir fletir sem sameina

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Sameiginlegt markmið okkar allra er að bæta lífskjör allra á landinu og næstu vikur munu fara í það að byggja brýr á milli samningsáherslna SA og kröfugerðar Starfsgreinasambandsins,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is.

Starfsgreinasambandið (SGS) sendi síðdegis frá sér tvær kröfu­gerðir sem voru samþykkt­ar á samn­inga­nefnd­ar­fundi sam­bands­ins í dag. Kröfu­gerðirn­ar snúa ann­ars veg­ar að stjórn­völd­um og hins veg­ar að at­vinnu­rek­end­um. SA kynntu samningsáherslur sínar fyrir komandi kjarasamninga í síðustu viku.

Halldór Benjamín segir það jákvætt við kröfugerð sambandsins að þar séu fjölmargir fletir sem sameina Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasambandið. „Sem dæmi um það má nefna húsnæðisliðinn, sveigjanlegri vinnutíma og styttingu heildarvinnutíma sem munu vega mjög þungt í komandi kjarasamningum,“ segir hann.

Ekki tekið mið af stöðu íslenskra fyrirtækja

Í kröfu­gerð SGS gagn­vart Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins er þess krafist að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans, en stefnt er að því að semja til þriggja ára. Halldór er ekki tilbúinn að tjá sig um einstakar tölur.

„Aðilar vinnumarkaðsins, SA og launþegahreyfingin, hafa í undanförnum samningum hækkað lægstu laun verulega umfram aðra, um það hefur verið góð samstaða. Við viljum að sjálfsögðu vinna áfram að því á skynsamlegum nótum eins og rými er til hverju sinni,“ segir Halldór Benjamín.

Þá segir hann að í kröfugerð sambandsins gagnvart atvinnurekendum sé litið fram hjá þeirri staðreynd að það eyðist sem af er tekið. „Þau taka ekki mið af stöðu íslenskra fyrirtækja og líta fram hjá því að laun hafa hækkað um 30% frá 2015 og lágmarkslaun um 40% og árangur okkar, það er að segja atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar, er að tryggja næstum því 25% kaupmáttaraukningu vegna lágrar verðbólgu,“ segir Halldór Benjamín og bætir við að Samtök atvinnulífsins vilji halda áfram á þeirri braut. „Enda er það raunveruleg lífskjarabót fyrir alla Íslendinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert