Kastaði stúlku í kaldan pott

Maðurinn kastaði stúlkunni í kaldan pott í Sundhöll Ísafjarðar gegn …
Maðurinn kastaði stúlkunni í kaldan pott í Sundhöll Ísafjarðar gegn hennar vilja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist að stúlku í Sundhöllinni á Ísafirði í mars á þessu ári og kastað henni nauðugri ofan í kaldan pott.

Stúlkan hlaut mar á og neðan við bæði hné við þessar aðfarir mannsins, sem eru í dómsorði sagðar virðast tilefnislausar.

Maðurinn er sakfelldur fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, en í ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum sagði að maðurinn hefði sýnt stúlkunni „yfirgang og ruddalega framkomu“ er hann greip undir handleggi hennar og kastaði henni nauðugri ofan í kalda pottinn, sem stendur á bakka sundlaugarinnar.

Sem áður segir er maðurinn dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Honum var ekki gert að greiða neinn sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert