Krefjast þjóðarátaks í húsnæðismálum

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður …
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að loknum fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsgreinasamband Íslands hefur sent frá sér tvær kröfugerðir sem voru samþykktar á samninganefndarfundi sambandsins í dag. Kröfugerðirnar snúa annars vegar að stjórnvöldum og hins vegar að atvinnurekendum.

Fram kemur í kröfugerðinni gagnvart stjórnvöldum að þær launahækkanir sem samið hefur verið um síðustu ár hafi skilað sér mjög misjafnlega til launafólks á Íslandi. Stjórnvöld þurfi að axla ábyrgð á bættum launakjörum með endurskoðun skatta- og bótakerfisins og stórátaki í húsnæðismálum. „Tugir þúsunda félagsmanna hafa tekið þátt í mótun kröfugerðar og er það samdóma álit að spjótin beinist að stjórnvöldum í komandi kjaraviðræðum,“ segir í kröfugerðinni.

Þess er krafist að lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði stiglækkandi með hærri tekjum. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Fjármagnseigendur verði ekki undanskildir ábyrgð og fjármagnstekjuskattur verði hækkaður til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Breytingar á lagaumhverfi leigumarkaðar

Í kröfugerðinni er farið fram á að gert verði þjóðarátak í húsnæðismálum, sambærilegt að vöxtum og áhrifum og verkamannabústaðakerfið sem var og hét. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til að gera það að veruleika.

Breytingar verði gerðar á lagaumhverfi leigumarkaðar í þá veru að takmarka skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis í ferðaþjónustu, húsnæðisstuðningur (húsnæðis- og vaxtabætur) verði stórlega efldur og dregið verði úr skerðingum vegna tekna og eigna.

Barnabætur hækkaðar og verðtrygging afnumin

Barnabætur verði hækkaðar og dregið úr skerðingum þannig að skerðingar komi ekki til áhrifa undir lágmarkstekjum og skerðingarviðmið fylgi síðan launaþróun. Þá þurfi að hækka vaxta- og húsnæðisbætur og draga úr skerðingum vegna tekna og eigna.

Einnig er lögð áhersla á að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarahækkana og launafólk á almenna vinnumarkaðnum.

Þess er krafist að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin, um leið og komið verði í veg fyrir að lántökukostnaður flytjist aftur á lántaka með öðrum leiðum. Húsnæðisliður verði tekinn út úr lögum um vexti og verðtryggingu. Seðlabankinn stuðli að lækkun stýrivaxta og þak verði sett á húsnæðisvexti með það að markmiði að ná hér vaxtakjörum sem eru sambærileg því sem tíðkast í nágrannalöndunum. 

Fæðingarorlof beggja foreldra verði lengt í samtals allt að 18-24 mánuði til að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og til að búa barnafjölskyldum betra líf.

Tekið verði á brotastarfsemi á vinnumarkaði 

Styrkja þarf lagaumhverfi, samkvæmt kröfugerðinni, til að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði og kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð með skýrum hætti og sektir lögfestar við slíkum brotum.

Vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga skal einnig eflt og einnig verði komið á reglubundnu og stórefldu samstarfi stéttarfélaga við Vinnueftirlit ríkisins, Vinnumálastofnun, ríkisskattstjóra, lögregluna, heilbrigðiseftirlitið og aðra eftirlitsaðila vegna brota gegn starfsfólki hvað varðar launagreiðslur, aðbúnað í vinnu og húsakost.

Sameina skal Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins í eina öfluga stofnun með nægt fjármagn til að sinna eftirlitshlutverki. Auka þarf aðhald frá stjórnvöldum gagnvart þeim stofnunum sem ber samkvæmt lögum að hafa eftirlit með brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Alþjóðasáttmálar verði virtir varðandi mansalsmál og aðgerðaáætlun staðfest og fjármögnuð.

Tekið verði á kennitöluflakki með skýrum og ábyrgum hætti með það fyrir augum að stöðva kennitöluflakk.

Kröfugerð SGS gagnvart SA

Í kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins kemur fram að forsendur þess að kjarasamningar verið undirritaðir séu að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum og þau mæti opinberum framfærsluviðmiðun. Hækkun lægstu launa skal vera í forgangi.

Nýr kjarasamningur skal gilda frá því síðasti samningur rann út, eða frá 1. janúar 2019, og skal vera afturvirkur dragist að ná samningum. Stefnt er að því semja til þriggja ára en þó með skýrum og mælanlegum forsenduákvæðum. Samið skal um krónutöluhækkanir sem almennar hækkanir. Tekjutrygging skal afnumin og lægstu taxtar skulu vera lægstu grunnlaun.

425 þúsund króna lágmarkslaun

Fram kemur að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga. Launataflan verði endurskoðuð og einfölduð verulega. Fjöldi þrepa verði aukinn þannig að starfsaldursþrep miðist við eins árs, 3 ára, 7 ára og 10 ára þrep. 

Ungmennalaun yfir 18 ára aldri verði afnumin en þess í stað miðist grunnlaun við 18 ára aldur.

Sett skulu inn ákvæði sem takmarka heimildir atvinnurekanda til að gera húsaleigu hluta af ráðningarkjörum. Heimilað skal eftirlit með slíkum ráðningarkjörum.

Húsaleiga skal ekki nema meira en tilteknu hlutfalli af heildarlaunum á mánaðargrundvelli, samkvæmt kröfugerðinni. Þar er gerð sú krafa að húsaleiga sé ekki rukkuð nema samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi, sé í samræmi við eðlilegt leiguverð og að umsamin upphæð húsaleigu sé þá hluti af ráðningarsamningi sem stéttarfélagi sé heimilt að skoða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert