Saka RÚV um auglýsingu í fréttatíma

Síminn vill að húsleit verði gerð í Efstaleiti.
Síminn vill að húsleit verði gerð í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síminn krefst þess að fjölmiðlanefnd rannsaki birtingu fréttar Ríkisútvarpsins um Hafnartorg 1. október. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Símanum, fer fram á það í bréfi til nefndarinnar að hún rannsaki hvort um sé að ræða óeðlileg tengsl sölu auglýsinga og frétta.

„Sjálfstæði fréttastofu RÚV gagnvart öðrum deildum fyrirtækisins er algert og engin dæmi þess að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn,“ er haft eftir Rakel Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV. Hún segir um hreinan atvinnuróg að ræða hjá Símanum.

Í bréfinu til fjölmiðlanefndar er óskað eftir rannsókn á því hvernig komið hafi til að frétt var gerð um Hafnartorg. Skömmu áður hafi Hafnartorg framleitt auglýsingu og leitað tilboða ljósvakamiðla um birtingu.

Síminn hafi gert tilboð sem ekki hafi verið tekið. Skömmu síðar hafi birting auglýsinga hafist í Ríkisútvarpinu sjónvarpi og í kjölfarið fréttin sem vísað er til í kvörtuninni. Telur Síminn að fréttin staðfesti „í eitt skipti fyrir öll óheppileg og reyndar ólögleg tengsl auglýsingasölu og dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu“. 

Í bréfinu kemur einnig fram að fréttin hafi verið ákaflega einhliða, þar hafi verið lesnar upp jákvæðar tölur og staðreyndir sem augljóslega komi úr fréttatilkynningu. Því er ekki haldið fram að bein sala hafi verið gerð á birtingu auglýsingar innan fréttatíma, heldur hafi verið liðlegheit við auglýsingadeild eða almannatengsla.

Þar er enn fremur sagt að RÚV muni neita sök í málinu og því fari Síminn fram á húsleit hjá RÚV vegna málsins. Ef nefndin verði ekki við því mun Síminn fara með málið til annarra yfirvalda.

Rakel segir að umrædd frétt hafi verið unnin að frumkvæði fréttastofunnar og allt myndefni sé unnið af myndatökumönnum RÚV, ólíkt því sem fullyrt er í bréfinu. Fréttamat sé huglægt og skiptar skoðanir um hvað sé fréttnæmt hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert