„Staddur í hálfgerðum fáránleika“

Umboðssvika­mál tengt fé­lag­inu Hreiðar Már Sig­urðsson ehf. í Héraðsdómi Reykja­vík­ur.
Umboðssvika­mál tengt fé­lag­inu Hreiðar Már Sig­urðsson ehf. í Héraðsdómi Reykja­vík­ur. mbl.is/Hari

Bæði ákærðu í innherja- og umboðssvikamáli tengt félaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, mættu við upphaf aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun. Málið er síðasta hrunmálið sem tekið er fyrir í héraðsdómi af þeim 23 sem sérstakur saksóknari og síðar héraðssaksóknari ákærði í.

Fyrst var tekin skýrsla af Hreiðari Má. Dómari bauð honum að tjá sig áður en skýrsla væri gefin, en Hreiðar hefur í fyrri málum meðal annars nýtt það til að fara yfir afstöðu sína til þess mál sem tekið er fyrir og gagnrýnt saksóknara fyrir rannsókn og framsetningu málsins. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig fyrirfram í þetta skiptið.

Hluti af starfskjörum Hreiðars Más var kaupréttur á bréfum í bankanum. Samkvæmt samþykkt stjórnar frá 2005 og ráðningasamningi bar bankanum að lána fyrir þessari upphæð. Árið 2006 ákvað Hreiðar að framselja félaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf. bréfin og sagði það vera hreinna fyrirkomulag. Hann hafi þó velt þessu mikið fyrir sér, enda skipti þetta talsverðu máli skattalega séð. Þannig þurfti hann meðal annars að greiða 336 milljónir árið eftir í skatta vegna þessa.

Hreiðar sagði engan rekstur hafa verið í þessu félagi fyrir utan að halda utan um hlutabréfin. Hann hafi ekki tekið út laun eða arðgreiðslu úr félaginu og þá átti hann ekki von á því að félagið hafi átt handbært eða laust fé sem neinu máli skipti.

Grundvallaratriði í málinu tengist þeim mismun sem verður á kaupverði Hreiðars sjálfs vegna kaupréttarins og svo þess markaðsverðs sem hann framselur félaginu nokkrum klukkustundum síðar. Munar þar um 320 milljónum króna.

Guðný Arna Sveinsdóttir ásamt lögmanni sínum í dómsal í morgun.
Guðný Arna Sveinsdóttir ásamt lögmanni sínum í dómsal í morgun. mbl.is/Hari

„Runnu þessir peningar til mín eða eitthvað annað?“

Hreiðar Már brást illa við nokkrum spurningum saksóknara þegar kom að því að spyrja um þennan mismun og sagði hann saksóknara í raun ekki skilja um hvað málið snerist. „Gerir þú þér grein fyrir hvert peningarnir fóru?“ spurði hann saksóknara. Sagði Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari að fjármunirnir hefðu að hluta til verið notaðir til að greiða skattskuld við ríkissjóð. Greip Hreiðar þá fram í fyrir honum og sagði „hver einasta króna“ og spurði saksóknara að nýju: „Runnu þessir peningar til mín eða eitthvað annað?“

Vísaði hann til þess að samkvæmt ákvörðun stjórnar nokkrum árum áður og samkvæmt ráðningasamningi ætti bankinn bæði að lána fyrir kaupunum á kaupréttargengi sem og fyrir skatti ef bréfin væru færð í sérstakt félag. Þannig hefði það meðal annars verið árin áður.

Vissi það sama og Hreiðar Már Sigurðsson ehf.

Þá sagði Hreiðar einkennilegt að vera ákærður fyrir innherjasvik í þessu máli þar sem bréf væru seld frá sér til félags í sinni eigu. „Framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eini eigandi Hreiðars Más Sigurðssonar ehf. vissi nákvæmlega það sama og Hreiðar Már Sigurðsson,“ sagði hann og bætti við að hann teldi þetta sögulegt mál á heimsmælikvarða þar sem hann vissi ekki um neitt mál þar sem innherjabrot gæti átt við viðskipti milli sama aðila. „Þessir tveir aðilar bjuggu yfir nákvæmlega sömu upplýsingunum,“ sagði Hreiðar og féllust honum hendur yfir stöðunni. „Mér finnst ég staddur í hálfgerðum fáránleika,“ sagði hann.

Deildu saksóknari og Hreiðar í framhaldinu um eðlismun á því að selja og framselja hlutabréf og sagði Hreiðar að í raun væri það alltaf sala þótt það væri framsal.

„Langar ykkur að ég hafi gefið þessi fyrirmæli?“

Gögnin sem saksóknari bar undir Hreiðar ná til 6. ágúst 2008, þótt lánveiting og uppgjör viðskiptanna sé síðar í mánuðinum. Í málinu er Hreiðar ákærður fyrir að hafa beitt starfsfólk þrýstingi vegna lánveitingarinnar til félagsins. Hreiðar spurði saksóknara að í ljósi þess að engin skrifleg gögn eða vitnisburður benti til þess að hann hafi beitt starfsfólki þrýsting hvernig stæði á því að hann væri ákærður. „Langar ykkur að ég hafi gefið þessi fyrirmæli?“ spurði hann og bætti við „Þú veist að það er ekkert skjal.“ Staðfesti hann að hafa ekki átt nein samskipti við starfsmenn eftir 6. ágúst út af lánveitingunni.

Þegar komið var að verjanda Hreiðars að spyrja hann var meðal annars farið yfir að nýting kaupréttar og lánveitingar hafi verið samkvæmt fyrra samþykki stjórnar og ráðningasamningi og að lánveitingin vegna skattauppgjörsins hafi ekki verið ósvipuð því sem gert var árið áður. Ítrekaði Hreiðar aftur að lán bankans hefði meira að segja verið lægra en sem nam skattaskuldbindingu hans. Þá gagnrýndi hann að við yfirheyrslur hafi aldrei verið minnst á við vitni að lánið hafi verið til greiðslu skatta, heldur hafi það verið látið líta út fyrir að hann hafi fengið þetta í sinn vasa, „til að fá önnur svör og önnur hughrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert