Dóra Björk vill úr stjórn Herjólfs

Dóra Björk kom inn í stjórnina í stað Kristínar Jóhannsdóttur …
Dóra Björk kom inn í stjórnina í stað Kristínar Jóhannsdóttur í ágúst og er annar tveggja fulltrúa H-listans í stjórn Herjólfs ohf. mbl.is/Sigurður Bogi

Dóra Björk Gunnarsdóttir er ósátt við vinnubrögð stjórnar Herjólfs ohf. og hefur óskað eftir því að fá að ganga úr stjórninni. Þetta kemur fram í bréfi hennar til eigenda Herjólfs ohf., formanns stjórnar Herjólfs ohf. og formanns bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar sem birt er á Eyjar.net.

Dóra Björk kom inn í stjórnina í stað Kristínar Jóhannsdóttur í ágúst og er annar tveggja fulltrúa H-listans í stjórn Herjólfs ohf. Í bréfinu segist Dóra Björk ekki sjá fram á að geta unnið við þær aðstæður sem uppi eru í stjórninni, en hún segir samskipti innan hennar lítil sem engin, fundi of fáa og upplýsingagjöf lélega.

Í bréfi sínu nefnir Dóra Björk fjölmargar ástæður að baki ósk sinni um að ganga úr stjórn. Þeirra á meðal er sú staðreynd að henni hefur gengið erfiðlega að ná tali af formanni stjórnar, að stjórnarmenn og varamenn hafi ekki fengið öll lögfræðibréf né önnur gögn á borð við samninginn við Vegagerðina, að bæjarráði Vestmannaeyjabæjar séu sendir punktar varðandi Herjólf ohf. án þess að þeir séu kynntir stjórnarmönnum og að gengið hafi verið frá ráðningu skipstjóra án samþykkis stjórnar.

„Ég á erfitt með að vinna með fólki þar sem vinnubrögðin eru eins og ég nefni hér að ofan og óska því eftir því við eigendur Herjólfs ohf. að fá að ganga út úr stjórninni hið fyrsta,“ segir Dóra Björk í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert