Ríkið greiði Aldísi tæpar 1,9 milljónir

Hæstiréttur sagði ekki hafa tekist að færa sönnur á að …
Hæstiréttur sagði ekki hafa tekist að færa sönnur á að Aldís hafi ekki haft tök á stjórnun fíkniefnadeildarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Aldísi Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna tilfærslu í starfi og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu lögreglustjóra.

Þá var ríkið einnig dæmt til að greiða Aldísi 366.720 krónur, sem svara kostnaði hennar vegna innlagnar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, sem fallist var á að væri bein afleiðing af þeirri ólögmætu ákvörðun sem hún sætti. Alls greiðir ríkið henni því tæpar 1,9 milljónir króna.

Héraðsdómur hafði áður sýknað ríkið af kröfum Aldísar, en hún áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Málavextir eru þeir að Sig­ríður Björk Guðjóns­dótt­ir lög­reglu­stjóri ákvað að færa Al­dísi til í starfi, en Aldís taldi um stjórn­valdsákvörðun að ræða sem byggði á ómál­efna­leg­um for­send­um og í raun verið illa dul­bú­in og fyr­ir­vara­laus brott­vikn­ing úr starfi. Þá sakaði hún Sig­ríði um einelti. Fór Al­dís fram á 2,3 millj­ón­ir í bæt­ur og ógild­ingu á ákvörðun­inni. Hæstiréttur vísaði hins vegar frá kröfu um ógildingu.

Sig­ríður sagði að deild­in hefði verið óstarf­hæf und­ir stjórn Al­dís­ar en því hafnaði Al­dís við aðalmeðferð máls­ins fyrir héraðsdómi. Hún hefði komið inn í erfiðar aðstæður í deild­inni og und­ir hafi kraumað mikl­ir erfiðleik­ar og hiti, meðal ann­ars vegna meintra spill­ing­ar­mála tveggja lög­reglu­full­trúa við deild­ina.

Hæstiréttur féllst ekki á að Aldís hafi ekki ráðið við stjórn fíkniefnadeildarinnar og setu í innleiðingarhópi sem átti að vinna að skipulagsbreytingum hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, líkt og fram var haldið. Engan veginn hafi tekist að færa sönnur á að hún hafi ekki haft tök á stjórnun deildar sinnar.

Með vísan til samtímagagna og framburðar vitna í málinu var ráðið að einhverjir flokkadrættir og óeining hefðu viðgengist í deildinni. En ekki var talið að Aldís „gæti borið ábyrgð á einhvers konar óróa innan deildarinnar sem skapaðist hefði vegna rannsóknar á spillingarmálum tveggja lögreglumanna.“

Þá var litið til þess að þrátt fyrir að launakjör Aldísar hefðu ekki verið skert með tilfærslunni og hún hafi verið tímabundinn, þá hafi ákvörðunin verið meira íþyngjandi fyrir hana en nauðsyn hafi borið til.

Hæstiréttur taldi að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði mátt vera ljóst að ákvörðunin hefði verið til þess fallin að vera meiðandi fyrir Aldísi sem í áranna rás hefði unnið sig til metorða innan lögreglunnar og verið falin aukin ábyrgð fáeinum mánuðum áður en ákvörðunin var tekin.

Íslenska ríkinu var einnig gert að greiða Aldísi 2,5 milljónir króna í málskostnað, bæði fyrir héraði og Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert