Ábyrgðin er hjá Seltjarnarnesbæ

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að viðræður hafi staðið yfir lengi við Seltjarnarnesbæ um rekstur á Bjargi og þær viðræður hafi ekki skilað árangri. Því hafi það verið þrautalending að senda málið til ráðuneytis sveitarstjórnarmála í gær. Rekstur Bjargs hafi verið tryggður frá næstu áramótum er Hjálpræðisherinn hættir að reka heimilið. 

Ásmundur Einar átti fund með forstöðukonu Bjargs, Kristínu Sigurðardóttur, og fulltrúum félags aðstandenda heimilismanna á Bjargi síðdegis í gær og gekk þar frá því að reksturinn verði frá áramótum í höndum Kristínar þar til viðundandi lausn finnst á búsetu heimilismanna á Bjargi en þar búa sjö karlmenn sem allir eru með geðklofagreiningu. 

Í samtali við mbl.is segir Ásmundur að ekki hafi verið annað hægt en að leita til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en það ráðuneyti getur beitt sveitarfélög dagsektum eða öðrum úrræðum sinni sveitarfélög ekki hlutverki sínu líkt og fram kemur í 116. grein sveitarstjórnarlaga. 

Um síðustu mánaðamót tóku gildi breytingar á lögum um þjónustu við fatlað fólk og er þar ekki lengur að finna ákvæði um að sveitarfélög með færri en átta þúsund íbúa geti verið undanskilið því að sinna þjónustu sem þessari. Því getur Seltjarnarnesbær ekki borið fyrir sig það ákvæði varðandi Bjarg líkt og var gert í viðræðum um framtíð Bjargs milli ríkis og sveitarfélagsins. 

Jafnframt sagði Seltjarnarnesbær sig frá samstarfi við Reykjavíkurborg fyrir þremur árum um þjónustu af þessu tagi en íbúarnir á Bjargi eru með lögheimili á Seltjarnarnesi.

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. mbl.is/Golli

Bjarg er, eins og áður hefur komið fram, rekið af Hjálp­ræðis­hern­um, sem á hús­næðið, sam­kvæmt samn­ingi við ríkið en Hjálp­ræðis­her­inn lýsti því yfir fyrr á ár­inu að hann myndi hætta rekstri heim­il­is­ins í árs­lok. Bjarg var rekið á grund­velli samn­ings við ríkið en við yf­ir­færslu þjón­ustu við fatlað fólk frá ríki til sveit­ar­fé­laga var fjár­magn sem áður fór í rekst­ur Bjargs flutt­ frá vel­ferðarráðuneyt­inu til jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga.

Menn­irn­ir, sem eru á aldrinum 51-80 ára, búa í 10 til 15 fm her­bergj­um með aðgangi að sam­eig­in­legri snyrtiaðstöðu og dag­rými í þriggja hæða húsi þar sem ekki er lyfta og þröng­ur bratt­ur stigi á milli hæða.

Þegar þeir voru fleiri bjuggu tveir og tveir sam­an í tveim­ur stærstu tveim­ur her­bergj­un­um.  Lengi vel var ekki hægt að læsa her­bergj­un­um og íbú­arn­ir höfðu eng­ar læst­ar hirsl­ur. Hús­næðið er vist­legt og starfs­menn fín­ir, sagði Anna Gunn­hild­ur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, á fjár­málaráðstefnu sveit­ar­fé­lag­anna í gær. 

Af því að menn­irn­ir búa á stofn­un fá þeir vasa­pen­ing, ekki ör­orku­bæt­ur. Með öðrum orðum fá þeir 68.000 kr. í vasa­pen­ing í staðinn fyr­ir hátt í 300.000 kr. ör­orku­bæt­ur. Af vasa­pen­ingn­um þurfa þeir ekki að greiða kostnað við þjón­ustu og hús­næði eins og af ör­orku­bót­un­um. Engu að síður er ljóst að með þessu skipu­lagi hafa þeir verið snuðaðir um hátt í 100 þúsund krón­ur á mánuði í ára­tugi, gróft reiknað, sagði Anna Gunn­hild­ur í er­indi sínu.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is til upplýsingafulltrúa velferðarráðuneytisins kemur fram að þar sem Bjarg er heimili viðkomandi einstaklinga heyri málið undir sveitarfélagið sem er í þessu tilviki Seltjarnarnesbær. Íbúarnir skulu njóta réttinda hvort heldur til þjónustu eða bóta almannatrygginga samkvæmt lögum, líkt og allir aðrir landsmenn. Um akstursþjónustu gilda lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og um örorkubætur gilda lög um almannatryggingar.

Ráðuneytið ítrekar það sem fram kom í máli félags- og jafnréttismálaráðherra í fjölmiðlum í gær, að velferðarráðuneytið muni ganga eftir því að sveitarfélagið axli skyldur sínar í þessu máli en jafnframt leggja sitt af mörkum til að íbúar heimilisins gjaldi ekki fyrir ágreininginn, segir í svari frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert