Borgin sektuð um 150.000 kr. á dag

Málið snýst um aðbúnað starfsmanna á leikskólanum Lyngheimum og fyrirmæli …
Málið snýst um aðbúnað starfsmanna á leikskólanum Lyngheimum og fyrirmæli Vinnueftirlitsins voru fyrst sett fram árið 2013. mbl.is/​Hari

Vinnueftirlitið hóf á mánudag að leggja 150.000 kr. dagsektir á Reykjavíkurborg, vegna vanrækslu borgarinnar á að fara eftir fyrirmælum stofnunarinnar um úrbætur á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi starfsmanna að leikskólanum Lyngheimum.

Borgin verður þannig sektuð um 150.000 kr. á hverjum degi þar til búið er að gera úrbætur. Málið á sér langan aðdraganda, en fyrst gaf Vinnueftirlitið borginni fyrirmæli um að ráðast í úrbætur í upphafi ársins 2013.

Þær úrbætur sem Vinnumálastofnun vill að ráðist verði í eru þær að vinnustaðurinn skuli hafa tvö salerni, þar sem þar starfi fleiri en 15 konur. Einnig skal hafa þvottavél í vinnuhæð, til að koma í veg fyrir álag á bak og herðar þegar verið er að setja í og taka úr henni. Þá skal gera úrbætur á vinnuaðstöðu við uppþvottavél á leikskólanum, til að koma í veg fyrir álag á bak og herðar og sömuleiðis tryggja að öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður hafi sótt námskeið um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.

Þessi fyrirmæli voru gefin fyrir tæpum sex árum síðan síðan og hafa verið ítrekuð tvisvar síðan þá með bréfum frá Vinnueftirlitinu til leikskólans.

„Þrátt fyrir þessar ítrekanir þá var ekki farið eftir þessum fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins,“ segir í ákvörðun Vinnueftirlitsins – sem nú leggur á 150.000 króna sekt á Reykjavíkurborg á degi hverjum þar til bætt hefur verið úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert