Dagur farinn í veikindaleyfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Hari

Alvarleg sýking, sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk í kviðarholið síðasta haust, hefur tekið sig upp að nýju. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag

Í samráði við lækna var Dagur settur á viðeigandi meðferð í fyrradag til að sýkingin gangi ekki jafnlangt og síðast. Hann tekur sér nokkra daga frá vinnu, að sinni. Dagur greindist í sumar með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm í kjölfar kviðarholssýkingarinnar, svokallaða fylgigigt, sem skerðir hreyfigetu hans og getur flakkað á milli liða og lagst á líffæri.

Hann segist ekki ætla í lengra veikindaleyfi að sinni. „Ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að jafna mig og fékk staðgengla til þess að sinna mínum skyldum á meðan. Ég bý svo vel að eiga góða samstarfsmenn. Ég vonast til að vera orðinn betri eftir helgi, en þarf að meta það með mínum læknum.“

Mikið hefur mætt á meirihluta borgarstjórnar. Braggamálið svokallaða, hundraða milljóna króna framúrkeyrsla í framkvæmdum á vegum borgarinnar, hefur vakið athygli sem og starfsmannamál Orkuveitunnar, en á hvorum tveggja vígstöðvum fer fram úttekt á því sem þar fór úrskeiðis. Álagið er mikið og fjölmiðlar liggja á borgarstjóranum. Hann vill ekki slá því föstu að vinnuálag spili inn í veikindin. „Vikurnar eru ólíkar, en það er alltaf álag í þessu starfi. Mér hefur fundist meðferðin ganga vel við gigtinni,“ segir Dagur, sem er á sterkum krabbameinslyfjum til að halda henni niðri.

„Mér hefur þótt ganga vel að sameina þetta allt vinnunni. Kannski hef ég gengið á lagið og hlaðið á mig. En ég bind vonir við það að ná sýkingunni niður á einhverjum dögum, þó að ég verði á lyfjunum í einhverjar vikur, og að ég verði kominn fljótlega aftur til vinnu,“ útskýrir hann. „Þetta núna tengist ekki einhverjum fjölmiðlamálum. Það er verra að vera ekki í hringiðunni þegar svona er,“ en bent hefur verið á í pistlum að það sé óheppilegt að nú þegar braggamálið sé í hámæli sé ekki hægt að ná tali af borgarstjóra, segir í Fréttablaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert