Faðir leikstjóra keypti 20.000 bíómiða

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Sena ehf. hefur verið dæmt til þess að greiða kvikmyndaframleiðslufyrirtækinu Virgo 2 ehf. tæpar 3,7 milljónir króna vegna dreifingarsamnings kvikmyndarinnar Grimmdar, sem tekin var til sýninga árið 2016. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp þennan dóm í dag.

Málið er ansi flókið og snýst um það að umsamdar greiðslur frá Senu til framleiðenda myndarinnar hafi ekki verið í samræmi við samninga þar að lútandi. Félagið Virgo 2 ehf., sem framleiddi myndina og á höfundarréttinn, er í eigu Antons Inga Sigurðssonar og Ragnars Þórs Jónssonar.

Það sem vekur mesta athygli við lestur dómsins er að félag í eigu föðurs Antons Inga, sem skrifaði handritið og leikstýrði myndinni, hafi keypt 20.000 miða á myndina fyrir 10 milljónir króna.

Kvikmyndin Grimmd var frumsýnd haustið 2016.
Kvikmyndin Grimmd var frumsýnd haustið 2016.

Í dóminum kemur fram að faðir leikstjórans hefði viljað styrkja myndina, þar sem styrkur til gerðar hennar fékkst ekki hjá Kvikmyndasjóði Íslands til eftirvinnslu hennar. Styrkveitingin var samkvæmt leikstjóranum sjálfum öðrum þræði höfð með þessu fyrirkomulagi til að „láta líta út fyrir að meiri aðsókn hefði verið á kvikmyndina til að auðveldara yrði að koma henni á markað erlendis.“

Greiðslan vegna miðakaupa föðurs leikstjórans fór til annars félags, Virgo Films ehf., sem er í eigu Antons Inga. Það var gert samkvæmt munnlegu samkomulagi leikstjórans, Antons Inga og Senu, en héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki rúmast innan prókúruumboðs Antons Inga í félaginu Virgo 2 að ráðstafa fjárhagslegum hagmunum félagsins af sölu myndarinnar til annars félags í sinni eigu.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Sena þurfi að bera hallann af þessu, þar sem Senu hafi verið fullkunnugt að Virgo 2 ehf. var framleiðandi kvikmyndarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert