Forysta Eflingar gagnrýnd harðlega

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.

Formaður og framkvæmdastjóri Eflingar voru harðlega gagnrýnd á fundi með starfsfólki félagsins fyrir að hafa í engu svarað gífuryrðum og hörðum árásum Gunnars Smára Egilssonar á starfsmann félagsins til áratuga, fjármálastjórann.

Kemur þetta fram í samtali við starfsmann félagsins. „Hver á fætur öðrum lýsti óánægju sinni með þegjandahátt tvímenninganna og frómt frá sagt var fátt um svör hjá Sólveigu Önnu [Jónsdóttur] og Viðari [Þorsteinssyni],“ segir starfsmaðurinn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag

Þessara umræðna var í engu getið í yfirlýsingu „vegna umfjöllunar í fjölmiðlum“ sem Sólveig og Viðar birtu á vef Eflingar að fundi loknum. Þar var þó sagt að þau bæru traust til starfsfólksins.

Fyrst var fjallað um málefni Eflingar í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu á laugardag og er hún birt hér að neðan:

Óvinveitt yfirtaka á Eflingu?

Ekki er allt með felldu í Eflingu stéttarfélagi, einkum á skrifstofu félagsins, en þar starfa um 50 manns, hjá þessu næststærsta stéttarfélagi landins, sem telur yfir 19 þúsund manns. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns er loft lævi blandið á skrifstofu Eflingar. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri eru sögð stjórna með harðri hendi og starfsfólki jafnvel hótað áminningu í starfi af minna en engu tilefni.

Sólveig Anna formaður frá því í vor, bar við trúnaði við starfsmenn og neitaði að svara efnislega, þegar hún var spurð um ástæður þess að tveir af reynslumestu starfsmönnum félagsins, fjármálastjórinn og bókari, eru komnir í ótímagreint veikindaleyfi. Ástæðan er m.a. sú, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að fjármálastjórinn neitaði að greiða háan innsendan reikning frá Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu Gunnars Smára Egilssonar, formanns Sósíalistaflokksins, helsta bakhjarls Sólveigar Önnu í baráttunni um formennskuna, án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar Eflingar fyrir greiðslu reikningsins. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var þessi afgreiðsluháttur fjármálastjórans byggður á áratuga hefðum og hefur aldrei verið vefengdur, þar til nú.

 Hallarbylting í vor

Mönnum er í fersku minni þegar hallarbylting var gerð í félaginu snemma á þessu ári og B-listi undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem var rækilega studd af Sósíalistaflokki Gunnars Smára Egilssonar tók völdin og felldi lista Sigurðar Bessasonar og félaga. Ekki má gleyma því að kosningaþátttaka var einungis um 10%. B- listinn fékk átta stjórnarmenn en A-listinn sjö.

Sólveig Anna kom svo til fundar á skrifstofu Eflingar, vopnuð hægri hönd sinni, Viðari Þorsteinssyni, og kynnti hann til sögunnar á fundinum sem sinn næstráðanda og rak þannig skrifstofustjórann, Þráin Hallgrímsson, nánast í beinni útsendingu og án þess að eiga orðastað við hann um þessa fyrirætlan sína. Áður höfðu Sólveig Anna og Viðar losað sig við hagfræðing félagsins, Hörpu Ólafsdóttur.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun tvíeykið, Sólveig Anna og Viðar, hafa gefið það út að ekki yrði um frekari hreinsanir á skrifstofu Eflingar að ræða, af þeirra hálfu.

En það kom babb í bátinn, því Alda Lóa Leifsdóttir er sögð hafa mætt á skrifstofu Eflingar í Guðrúnartúni 1, fyrir skemmstu, þar sem hún hitti fjármálastjóra Eflingar í áratugi að máli og Alda Lóa lagði fram digran reikning, upp á um eina milljón króna, eftir því sem næst verður komist, og vildi fá reikninginn greiddan m.a. vegna ljósmynda sem hún hefði tekið í þágu Eflingar. Áður hafði Alda Lóa fengið um 4 milljónir króna greiddar vegna svipaðra verkefna og gerðar myndbands, sem meirihluti stjórnar hafði samþykkt.

Svör fjármálastjórans munu hafa verið á þann veg að svona háa reikninga gæti hún ekki greitt öðruvísi en ákvörðun stjórnar Eflingar fyrir útgjöldunum lægi fyrir.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa vinnubrögð fjármálastjórans, áður gjaldkerans, sem lýst er hér að ofan, í áratugi verið sögð einkennandi fyrir hennar ábyrgu afstöðu í starfi. Hún starfi samkvæmt grundvallarreglum og hafi ávallt gert. Um þetta ber viðmælendum Morgunblaðsins saman, hvort sem um óbreytta félagsmenn í Eflingu er að ræða eða núverandi og fyrrverandi starfsmenn. Þeir segja að hún hafi verið einstaklega farsæll starfsmaður í gegnum tíðina og mikill fengur hafi verið í henni. Fjármálastjórinn hóf fyrst störf hjá Gvendi Jaka (Guðmundi J. Guðmundssyni) snemma á áttunda áratug síðustu aldar, þegar hann var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Það var svo snemma á tíunda áratugnum sem hún tók við gjaldkerastarfinu hjá Eflingu.

Við þessa afstöðu fjármálastjórans hljóp þeim Sólveigu Önnu og Viðari kapp í kinn og þau vildu leiðrétta það hið snarasta hver tæki ákvarðanir á skrifstofu Eflingar, hvort sem það varðaði ákvarðanir um fjármál eða annað.

Og ekki batnaði andrúmsloftið þegar ljóst varð að bókari á skrifstofu Eflingar til fimmtán ára tók eindregna afstöðu með fjármálastjóranum, sem varð til þess að hún féll líka í ónáð hjá hinu ráðandi tvíeyki, Sólveigu Önnu og Viðari.

Bæði fjármálastjórinn og bókarinn eru komnar í ótímagreint veikindafrí frá störfum sínum á skrifstofu Eflingar, eftir því sem næst verður komist, og sömuleiðis hefur blaðamaður heimildir fyrir því að þeirra mál gagnvart Eflingu séu nú í höndum lögfræðinga þeirra. Hvorug vildi ræða við blaðamann, þegar eftir því var leitað.

Sólveig Anna var í ljósi þess sem hefur verið að gerast á skrifstofu Eflingar að undanförnu, spurð hvort draga mætti þá ályktun að Sósíalistaflokkurinn væri að taka yfir öll völd í 19 þúsund manna stéttarfélagi: „Ég held bara að ég svari þessu þannig, að ég hljóti að vera bundin fullum trúnaði um þessi mál og ég kýs að tjá mig ekki um innri mál skrifstofunnar, sökum trúnaðar við starfsfólk,“ sagði Sólveig Anna.

 „Jahá! Plot thickens!“

Blaðamaður sagði formanni Eflingar, að samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafi fjármálastjóri Eflingar í áratugi neitað að greiða Öldu Lóu Leifsdóttur háan reikning, nema hann væri uppáskrifaður og samþykktur af stjórn Eflingar. Við þessi tíðindi hafi hún, formaður félagsins og hennar nánasti samstarfsmaður, Viðar Þorsteinsson, brugðist ókvæða við og nú sé fjármálastjórinn auk bókara komnir í ótímagreint veikindaleyfi. Sólveig Anna var spurð hverju hún svaraði til um lýsingu atburða og hvort þetta væri ekki alvarleg vísbending um að Sósíalistaflokkurinn, í samvinnu við hana og Viðar, væri að reyna að taka Eflingu, 19 þúsund manna stéttarfélag og digra sjóði félagsins upp á 12 milljarða króna, yfir:

„Jahá! Plot thickens!“ sagði Sólveig Anna og bætti svo við: „Ég skal segja þér það í fullum trúnaði, að þarna er ekki rétt farið með, en að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig um þetta mál.“

Þá var Sólveig Anna spurð hvort hún væri samþykk því að viðhalda þeirri hefð sem ríkt hefði í marga áratugi hjá Eflingu og forvera hennar Dagsbrún, allt frá dögum Gvendar Jaka, að hvorki formenn né æðstu starfsmenn félagsins væru nokkurn tíma prókúruhafar félagsins, þar sem meginreglan hafi verið sú að aðskilja ákvörðunarvaldið frá reikningshaldinu og útgáfu peningalegrar ábyrgðar og aftur neitaði formaðurinn að tjá sig og bar enn á ný fyrir sig trúnað við starfsmenn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert