Óttinn við gagnrýni ráði ekki för

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, gerði að umtalsefni sínu í ræðu sinni við upphaf flokksráðsfundar flokksins í Smáranum í Kópavogi í dag var staða hans þegar styttist í 20 ára afmælið á næsta ári. Lagði hún meðal annars áherslu á að eins og annað hefði VG tekið breytingum.

Þannig væri VG ekki nákvæmlega sami flokkurinn og hefði verið stofnaður fyrir tæpum tveimur áratugum. Stjórnmálaflokkur væri enda ekki safn eða stofnun með hlutverk sem skráð væri í lög heldur hreyfing sem eins og nafnið gæfi til kynna væri ekki kyrrstæð. Hreyfing fólks sem breyttist, þroskaðist, lærði og skipti stundum um skoðun.

Þegar talað væri um stjórnmál og stefnu skiptu gildin mestu máli. Sjálf sagðist Katrín hafa lært mikið á þeim áratug sem hún hefði setið á þingi og skoðanir hennar á ýmsu hefðu breyst og þróast í gegnum tíðina. Til að mynda á bankamálum, landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. Reynslan hefði enn fremur mótað VG sem stjórnmálaafl.

Ekki hægt að fá allt á óskalistanum í stjórnarsamstarfi

Katrín sagði að þátttaka VG í ríkisstjórninni 2009-2013 hafi talsvert breytt flokknum. Þar hafi ekki verið hægt að láta nægja að gagnrýna og setja fram óskir heldur hafi þurft að starfa með öðrum og leysa ófyrirsjáanleg og flókin verkefni sem kallað hefði á málamiðlanir. Margir aðrir flokkar hefðu síðan tekið við því hlutverki að hafa aldrei þurft að miðla málum.

VG hefði á sama tíma lært að ekki fengist allt á óskalistanum í ríkisstjórnarsamstarfi. Jafnvel gæti sú staða komið upp að fleiri en eitt af mikilvægustu gildum flokksins kallaði á ólíkar niðurstöður. Stundum stönguðust gildin á og þá þyrfti að viðurkenna það og vinna úr því. Þetta væri eitthvað sem ætti bæði við um einstaklinga og stjórnmálaflokka.

Katrín sagði enn fremur að VG væri ekki eini stjórnmálaflokkurinn sem hefði breyst. Eitt af því sem hefði haft áhrif á þróun stjórnmálanna á síðustu árum hafi verið óttinn við að vera kennt um allt sem aflaga færi sem aftur hefði haft áhrif á það hvernig ákvarðanir væru teknar. Enginn vildi þannig bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum.

Sagðist Katrín sannfærð um að núverandi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gæti skipt máli í þeim efnum. VG hefði tekið áhættu við myndun ríkisstjórnar 2009 og aftur á síðasta ári vegna þess að það væri ekki ætlun flokksins að láta óttann við gagnrýnina ráða för heldur trúna á árangur fyrir fólkið í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert