Tekjur allra Íslendinga gegn gjaldi

Vefsíða hefur verið opnuð þar sem veittur er aðgangur gegn gjaldi að upplýsingum um tekjur allra einstaklinga á árinu 2016 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra.

Fram kemur á vefsíðunni, sem hýst er undir léninu Tekjur.is, að þar séu birtar „upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga, samkvæmt skattskrá ríkisskattsjóra. Skattskráin sýnir skattgreiðslur einstaklinga – tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt - vegna tekna á árinu 2016.“ Enn fremur segir að um árabil hafi það tíðkast að birta upplýsingar um tekjur valinna skattgreiðenda. Einkum þeirra tekjuhæstu.

„Mikil umræða hefur gjarnan sprottið af birtingu þeirra upplýsinga, en hún hefur takmarkast við lítinn hóp fólks og ekki endilega gefið raunsanna mynd af tekjum Íslendinga,“ segir enn fremur á vefsíðunni en Viskubrunnur ehf. er rekstraraðili hennar.

Björgvin Guðmundsson almannatengill hefur sent Persónuvernd kvörtun vegna vefsíðunnar og er málið til skoðunar hjá stofnuninni. Fleiri kvartanir hafa einnig borist.

Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um aðstandendur vefsíðunnar en Jón Ragnar Arnarsson er skráður sem stjórnarmaður Viskubrunns í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert