Uppreist æru ekki í takt við nútímann

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru. Í greinargerð kemur fram að fjárhagsleg langtímaáhrif frumvarpsins séu hverfandi. Ekki er gert ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs muni aukast verði það óbreytt að lögum. Bent er á að undanfarin ár hafi uppreist æru verið veitt að jafnaði einu sinni til tvisvar á ári en að fjöldi umsókna hafi verið meiri. 

Lögin eiga að taka gildi 1. janúar næstkomandi. Þar segir að með lögunum og þeirri heildarendurskoðun sem núna fer fram sé horfið endanlega frá því að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru.

Þyngri skilyrði vegna málflutningsréttinda

Lagt er til að horfið verði frá því að skilyrði fyrir starfi eða embætti verði þau að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem megi telja svívirðilegt að almenningsáliti.

„Verði frumvarp þetta að lögum getur hver sá sem hefur lokið afplánun fangelsisrefsingar boðið sig fram í kosningum, en hæfisskilyrði í tiltekin embætti réttarvörslukerfisins og til veitingar málflutningsréttinda verða þyngd. Þá verður að öllum líkindum tilefni til þess að endurskoða í kjölfarið þær kröfur sem gerðar eru til ýmissa annarra stétta og embætta, svo sem endurskoðenda, ríkisskattstjóra og félagsdóms, auk þess sem rétt er að huga að því hvort rétt sé að skilgreina nánar í lögum hæfisskilyrði til dæmis heilbrigðisstarfsmanna eða presta,“ segir í greinargerðinni.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Lögmannafélag Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og velferðarráðuneyti. Þá var frumvarpið birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins áður en það var lagt fram á Alþingi. Umsagnir bárust frá Lögmannafélagi Íslands og Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, og var tekið tillit til umsagnanna við vinnslu frumvarpsins.

Missi ekki borgaraleg réttindi

Með 1. grein frumvarpsins er lagt til að 84. og 85. greinar almennra hegningarlaga sem fjalla um uppreist æru verði felldar brott úr lögunum. Þannig verður horfið frá því að fjalla um missi æru einstaklinga í íslenskri löggjöf og endurveitingu æru með stjórnvaldsákvörðun, enda þyki slíkt fyrirkomulag úrelt og ekki í takt við nútímahugmyndir í refsipólitík.

„Þá ber hugtakið æra gildishlaðna merkingu og því þykir skjóta skökku við að einstaklingur geti hlotið æru sína með sérstakri yfirlýsingu frá forseta Íslands að uppfylltum mjög takmörkuðum skilyrðum í löggjöf og framkvæmd. Eðlilegra þykir að einstaklingar missi ekki borgaraleg réttindi en kveðið sé á um það í sérlögum hverju sinni hver hæfisskilyrðin séu til þess að gegna megi tilteknum störfum eða njóta tiltekinna réttinda,“ segir í greinargerðinni.

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mega sinna starfinu fimm árum síðar

Í stað tilvísana í lögum til óflekkaðs mannorðs er lagt til að kveðið verði á um að einstaklingar, sem samkvæmt núgildandi lögum ber að hafa óflekkað mannorð til að njóta tiltekinna atvinnuréttinda, fái ekki að sinna starfinu nema fimm ár hafi liðið frá því afplánun hefur lokið að fullu, ef þeir hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var að minnsta kosti fjögurra mánaða óskilorðsbundið eða öryggisgæsla ef þeir voru orðnir 18 ára þegar brotið var framið.

„Athuga ber þó að efnislegar breytingar eru gerðar á hæfisskilyrðum í lögum um lögmenn og lögum um landsdóm. Með þessu móti er leitast við að halda að sem mestu leyti í óbreytt réttarástand í þeim tilvikum sem löggjafinn hefur metið óflekkað mannorð sem nægjanlegt skilyrði fyrir þeim réttindum, starfi eða embætti sem um ræðir,“ segir einnig í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert